Spurt og svarað

26. október 2008

Barn neitar hægra brjóstinu

Sælar.

 Ég á eina 3 mánaða og er ég með hana eingöngu á brjósti. En undanfarna daga hefur hún alveg neitað hægra brjóstinu. Hægra brjóstið hefur alltaf verið "verra" brjóstið en ég hef samt alltaf passað upp á að hún drekki  jafn oft af því og því vinstra. Vinstra brjóstið er orðið mun stærra en það hægra fyrir vikið. Þegar ég legg hana á hægra brjóstið þá verður hún mjög örg og grætur mikið og vill með engu móti drekka úr því. Ég hef reynt allt til að láta hana drekka úr því t.d. gefið í liggjandi stöðu. Þá reyndar byrjar hún að sjúga í nokkrar sekúndur en verður mjög reið mér fyrir að voga mér að bjóða henni þetta brjóst. Það er minni framleiðsla í hægra brjóstinu og fer dvínandi með þessu áframhaldi þannig að ég er komin í vítahring. Ég hef verið að reyna mjólka mig til að örva framleiðsluna en það hefur ekki borið neinn árangur. Eigið þið til einhver ráð handa mér?

Með fyrir fram þökk. Ein í brjóstagjafa-veseni.

 


Sæl og blessuð.

Þetta vandamál er nokkuð erfitt við að eiga en þó alveg yfirstíganlegt. Mörgum gefst betur að vera sitjandi og nota “renniaðferðina“ en að gefa liggjandi. „Renniaðferðin“  felst í því að byrja að gefa vinstra brjóst í kjöltustöðu í svona 2-3 mín. Svo er barninu rennt beint yfir á hægra brjóstið í fótboltastöðu. Þegar eða ef barnið byrjar að „kvarta“ þá er því rennt yfir á vinstra aftur. Þegar það er búið að róast þar er aftur rennt yfir á hægra o.s.frv. Betra er að þessar „renningar“ séu tiltölulegar snöggar þannig að barnið veiti þeim sem minnsta athygli. Það er eðlilegt að barnið uni ekki lengi við „erfiða“ brjóstið til að byrja með því það fær flæði í stuttan tíma (vegna dvínandi framleiðslu) en það er nokkuð sem lagast eftir nokkra daga.

Það er líka nauðsynlegt að örva mjólkurframleiðsluna hægra megin utan gjafatíma. Auðveldast er að gera það með handmjólkun. Mjólka brjóstið í litla skál í nokkrar mínútur. Ekki hafa áhyggjur þótt komi lítið. Þetta er meira gert til örvunar.

Gefðu þessum aðgerðum nokkra daga til að skila árangri.

Gangi þér vel.

Katrín Edda Magnúsdóttir,

ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,

26. október 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.