Bað og brjóstagjöf

18.09.2006

Sæl!

Mig langaði að spyrja hvort það sé ekki í lagi að fara í bað þó maður sé með barn á brjósti? Er að velta því fyrir mér hvort því fylgi nokkuð aukin sýkingarhætta fyrir brjóstin?

Ég að lesa svör hér á síðunni varðandi brjóstagjöf og sá í einu svarinu að það væru margar aðrar leiðir sem hægt væri að velja úr heldur en pelagjöf t.d. fingurgjöf. Hvað er fingurgjöf og hvaða aðrar leiðir getur maður valið en pela ef mann langar að fara út eina kvöldstund frá strumpinum sínum (er með 9 vikna gamalt barn).

Takk kærlega fyrir vægast sagt frábæran vef! Hann er algerlega nauðsynlegur fyrir nýbakaðar mæður.


Sæl og blessuð.

Jú, það er í fínu lagi að fara í bað. Alltaf róandi og gott.

Fingurgjöf er aðferð tl að gefa barninu meðfingrinum. Á hann er límd grönn slanga (fæst í Apótekum) sem í er sprautað mjólk me sprautu. Barnið sýgur þá fingurinn og fær mjólk um leið. Þú getur séð þetta nánar  hér á síðunni í Brjóstkorni sem heitir Fingurgjöf. Það má líka nota aðferðir eins og að gefa úr litlu glasi, teskeið, dropateljara eða sprautu. Það er bara misjafnt hvað fólki líkar við og hvað hentar hverjum og einum.

Vona að þetta gangi vel hjá þér.

Brjóstagjafakveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. september 2006.