Spurt og svarað

11. nóvember 2005

Beinþynning og brjóstagjöf

Sælar, kæru ljósmæður og takk fyrir frábæran vef sem hefur margoft komið mér að góðum notum!

Mig langar að spyrja hvort brjóstagjöf í lengri tíma (a.m.k. ár) hafi verið tengd aukinni hættu á beinþynningu hjá móðurinni seinna meir? Ég hef heyrt þetta en ég er enn með barnið mitt á brjósti og það er nú 9 mánaða. Veit ekki hvort þetta er leið til að fá mig til að hætta eða hvort það séu einhver rök fyrir þessu. Ég er með mjólkurofnæmi og fæ þar af leiðandi kannski minna kalk úr fæðunni en aðrir.

Kær kveðja, þrjósk móðir.

...........................................................................

Sæl og blessuð þrjóska móðir.

Ég er mjög ánægð með þrjóskar mæður. Þær láta yfirleitt allar úrtölur sem vind um eyrun þjóta og fylgja kannski meira eigin tilfinningum. Það er hið besta mál og skilar þeim yfirleitt mikilli ánægju til baka.

En varðandi þitt sérstaka mál þá var þetta álit margra hér áður fyrr að mikil beinþynning væri vandamál eftir að brjóstagjöf lyki. Það þótti rökrétt að álykta að þar sem barn drykki mikla mjólk frá móður, mjólkin væri full af kalki þá hlyti móðirin að verða algjörlega kalklaus eftir. Nútíma rannsóknir hafa aftur á móti sýnt fram á að þessu er alveg öfugt farið. Mæður sem hafa ekki á brjósti fá mesta beinþynningu. Konur sem hafa stutt á brjósti eru næstar og konur sem hafa lengst á brjósti standa uppi þegar allt kemur til alls með sterkustu beinin. Í þínu tilfelli er mikilvægt að þú takir inn nægilegt kalk á hverjum degi eða borðir kalkríkt grænmeti þar sem þú færð það ekki úr mjólkurafurðum.

Vona að þér gangi vel að halda brjóstagjöfinni a.m.k. til 1 árs.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. nóvember 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.