Spurt og svarað

03. nóvember 2007

Bítur brjóstið

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Ég á rúmlega 6 mánaða gamlan son sem er byrjaður að fá fasta fæða en fær enn brjóstamjólk fyrir allar máltíðir. Hann er kominn með 4 tennur, 2 uppi og 2 niðri og nú hefur hann bitið í geirvörtuna tvisvar sinnum og er oft að narta í hana. Þetta er auðvitað ofboðslega sárt og þegar hann bítur nær hann að bíta mig til blóðs og það er komið lítið sár á aðra geirvörtuna. Mín spurning er hvort eitthvað sé hægt að gera til að láta hann hætta þessu eða neyðist ég til að hætta með hann á brjósti ef hann heldur þessu áfram? Ég er mjög hrædd við þetta sár því þegar hann var 2 vikna fékk ég mjög slæm sár á báðar geirvörturnar vegna tunguhafts sem gréru ekki fyrr en hann var orðinn rúmlega 3ja mánaða. Mér langar alls ekki til að hætta með hann á brjóstinu en hvað get ég gert?

Með kveðju, Sólveig.

p.s. má gefa svona litlum börnum slátur eða er það of A og D vítamínríkt fyrir þau?Sælar og það er gaman að heyra hvað þú ert dugleg að hafa drenginn þinn á brjósti!

Ef barnið bítur í brjóstið - þá er ráðlagt að láta hann sleppa brjóstinu og bíða í smátíma og reyna svo að halda brjóstagjöf áfram - ef barnið bítur aftur þá er ráðlagt að hætta gjöfinni alveg, og bíða fram að næstu gjöf. Því er haldið fram að ef barnið bítur aftur að þá sé það ekki svangt. Það er talað um að barnið geti ekki sogið og bitið samtímis, og ef að barnið bítur í brjóstið er sagt að það sé ekki svangt lengur. Stundum bíta börnin í lok gjafar ef þau sofna við brjóstið og bíta þá saman jöxlum óvart, móðir þarf þá að vera tilbúin að setja fingur í munnvik barnsins og losa barnið af brjósti.
Flest börn hætta að bíta fljótlega hafi það komið fyrir við brjóstagjöf - og brjóstagjöf getur haldið áfram í lengri tíma jafnvel langt fram yfir eins árs aldurinn og allt gengið vel. Það er engin ástæða til að hætta með hann á brjósti. Móður bregður oft við ef barnið bítur og finnur sársauka - en hún má ekki skamma barnið eða sýna of sterk viðbrögð - barnið getur upplifað það sem höfnum frá móður - það er alltaf best að meðhöndla þessi atvik mjúklega - þá leysist þetta oftast af sjálfu sér.

Gangi þér vel,

Kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
3. nóvember 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.