Spurt og svarað

21. mars 2005

Biður sjaldan um brjóstið

Sæl!

Ég er með eina tæplega 3ja mánaða á brjósti og gengur vel. Hins vegar finnst mér hún vera byrjuð að biðja sjaldnar um brjóstið en hún gerði. Hún er samt mjög vær og góð og róleg þannig að það er ekkert vesen eða neitt slíkt. Eina sem ég er að spá í er það hvort það að hún sé að fara sjaldnar á brjóst minnki ekki framleiðsluna hjá mér? Hún drekkur yfirleitt á morgnana og daginn á 3-4ra klst. fresti (jafnvel aðeins lengra á milli) og á kvöldin svipað - kannski aðeins styttra á milli. Yfirleitt fær hún bara annað brjóstið í einu. Hversu mikið þurfa börn á þessum aldri að drekka á
dag (svona ca)? Og er það ekki fullkomlega eðlilegt að minna sé í brjóstunum á kvöldin en eiga þau samt ekki að fá nægu sína? Er til einhver mælikvarði hversu oft eigi að láta krílin á brjóst á þessum aldri - fylgjast frekar bara með þeim og hvernig þeim líður? Einnig langar mig að forvitnast með AD dropana en ég ákvað eiginlega að hætta að gefa þá, er ekki frá því að henni líði bara betur fyrir vikið. Er það nokkuð bráðnauðsynlegt að gefa þá, er ekki alveg eins gott að gefalýsi frá 6 mánaða aldri? Sjálf tek ég á fjölvítamín og Omega 3 lýsisperlur á hverjum morgni - er það ekki gott og blessað? Með fyrirfram þökk.

Ein paranoid mum ;)

..................................................................................

Sæl og blessuð.

Mér heyrist brjóstagjöfin þín vera komin í gott horf. Það er eiginlega ekkert til sem heitir að brjóstabarn eigi að drekka svo og svo oft. Það hefur eimitt komið fram við fjölda rannsókna að brjóstabörn eru mjög misjöfn innbyrðis m.t.t. þessa og einnig breytileg frá einum tíma til annars. Það er aðeins eitt sem er alveg öruggt. Barnið mun alltaf biðja um nákvæmlega þá næringu sem það þarfnast.

Það er búið að finna út að meðal gjafafjöldi barna á brjósti er 8-12 á sólarhring. Það þýðir að ákveðið hlutfall barna er í færri gjöfum og svipað hlutfall er í fleiri gjöfum. Samkvæmt tölunum sem þú nefnir er þitt barn nálægt því að vera í 7 gjöfum á sólarhring sem er í fínu lagi ef það hentar henni. Það getur svo farið í 5-6 gjafir suma daga og 8-9 aðra. Ekki hafa áhyggjur af því.

Þú spyrð líka að því hve mikið börn þurfa á dag. Það er eiginlega sama svar. Það er hægt að reikna það út vísindalega miðað við aldur og þyngd barnsins en mörg börn frussa því beint út um gluggann en þrífast fullkomlega samt. Það er jú eðlilegt að tilfinning mýkri brjósta komi fram á kvöldin þegar þreytan er farin að segja til sín eftir daginn, en börn fá nægju sína ef þau fá óheftan aðgang að brjóstunum það er alveg öruggt. Aldrei falla í þá gryfju að fara að gefa ábót á kvöldin. Það er örugg leið til að byrja að venja barn af brjósti.

Varðandi AD dropana þá hef ég alltaf litið svo á að Heilsugæslan mælti með notkun þeirra en ekki fyrirskipaði þá. Þeir eru ekki nauðsynlegir frekar en önnur bætiefni fyrsta árið. En það er mjög skynsamlegt hjá þér að passa upp á eigin næringu og bætiefni.

Með ósk um að svona vel gangi áfram,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
21. mars 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.