Blæðingar og losunarviðbragð

08.12.2013
Sælar og takk fyrir frábæra síðu!
Langar að spyrja út í áhrif blæðinga á brjóstagjöf. Sonur minn er tæplega 7 mánaða gamall, mikill brjóstakall og ég hef alltaf haft nóg fyrir hann. Hann var eingöngu á brjósti til 6 mánaða, er aðeins farinn að smakka fasta fæðu en alls ekki spenntur fyrir því. Fyrir viku síðan fór hann mjög skyndilega í brjóstaverkfall! Ég hef alltaf haft gott losunarviðbragð en allt í einu stóð það á sér og minn maður varð mjög sár.Þetta var orðið þannig að ég gat ekki gefið honum nema sofandi. Hann vildi fara á brjóstið en hafði enga þolinmæði í að sjúga í einhvern tíma áður en mjólkin byrjaði að streyma. Ég vil alls ekki hætta með hann á brjósti eða bara geta gefið honum sofandi svo ég las mér til og leitaði mér hjálpar. Úr varð að ég fékk oxitocin nefsprey hjá lækni til að framkalla losunarviðbragðið og náði ég syni mínum aftur á brjóstið strax frá fyrstu gjöf, sem segir mér að þetta var ástæða verkfallsins. 4 dögum eftir upphaf verkfalls byrjaði ég á blæðingum og er enn. Geta blæðingarnar verið ástæðan fyrir þessari breytingu á losunarviðbragðinu? Ég veit að mjólkin getur minnkað rétt fyrir upphaf blæðinga en er möguleiki að tíðarhormón trufli losun á oxitocini? Er það kannski frekar að losunarviðbragðið kemur ekki eins hratt sem afleiðing af minni mjólk? Með von um skjót svör.

Sæl og blessuð!
Fyrirgefðu hvað svarið kemur seint en vandamálið er líklega úr sögunni og þú meira að leita útskýringa. Þú hefur lent í því sem margar gera við upphaf blæðinga. Börnin eru reyndar misnæm fyrir þessum breytingum og þitt barn bregst mikið við. Það er ekki talið að upphaf blæðinga hafi mikil áhrif á losunarviðbragðið. En það hefur svolítil áhrif á samsetningu mjólkurinnar tímabundið og þar með bragð hennar. Eins og áður segir bregðast sum börn við þessu með breyttu neyslumynstri. Þau taka litla smakkskammta í byrjun sem eru ekki nægir til að setja losun af stað og fara svo að láta illa. Móðir spennist upp við þessa hegðun og truflar þannnig fyrir frekari losun. Sumir halda því jafnvel fram að barnið finni á lyktinni af móður sinni að hormónabreytingar séu í gangi og vandræði koma í kjölfarið. Þú leystir vandamálið á góðan hátt. En þú getur átt eftir að lenda í þessu mánaðarlega í nokkur skipti þannig að það er gott að afla sér vitneskju og reyna að leysa síðan málin eftir bestu getu.
Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. desember 2013.