Spurt og svarað

08. nóvember 2022

D vítamín og járn- ógleðisvaldar?

Góðan dag. Ég hef heyrt að annars vegar járn og hins vegar D vítamín geti valdið eða ýtt undir ógleði. Ég hef verið að taka D vítamín frá 6 viku, og búin að vera óglatt upp á hvern einasta dag síðan. Hætti svo að taka það fyrir 3 dögum og var miklu hressari á þeim tíma og fann varla fyrir ógleði. Var svo að byrja að taka járn í dag og finn strax aftur fyrir ógleði. Veit að það gæti verið ýmislegt annað sem veldur þessu en getur verið að annað hvort járnið eða D vitaminið sé að hafa áhrif á þetta hjá mér? Og er hægt að gera eitthvað til að vinna á móti þeim áhrifum? Ef járnið er að valda ógleði að þá veit ég ekki hvort það sé þess virði að taka það en á sama tíma er ekki gott að vera með járnskort en spurning hvort er betra af tvennu illu.

Góðan dag og takk fyrir fyrirspurnina, 

Þekkt aukaverkun af járni er ógleði, ásamt öðrum meltingarvandamálum líkt og hægðatregðu, magaverkjum og niðurgangi. 

Járnþörf eykst á meðgöngu vegna þess að líkaminn myndar aukið blóð, bæði eykst rúmmál blóðsins og framleiðsla rauðra blóðkorna. En járn er mikilvægur þáttur í myndun rauðra blóðkorna og er því mikilvægt fyrir ónæmiskerfið. Ef að blóðprufa sýndi að þú værir lág í járni þá er ráðlagt að taka inn járn. Ég ráðlegg þér þó að taka inn járntöflurnar aðeins annan hvern dag og gott er að taka þær með c-vítamíni sem eykur upptöku járnsins (t.d. appelsínusafa) og passa að neyta ekki mjólkur fljótlega eftir/fyrir sem minnkar upptöku. Í sumum tilvikum veldur hægðatregða ógleði og þá er mikilvægt að drekka nóg af vökva, borða vel af trefjum, hreyfa sig og fleira. Í sumum tilvikum er ráðlagt að nota magnesa medic töflur. Sjá má betur hér. Ef að ógleðin heldur áfram ráðlegg ég þér að leita til ljósmóður í meðgönguvernd. 

Ég vil einnig benda þér á ýmis matvæli sem eru járnrík eins og kjöt, baunir, þurrkaðir ávextir, dökkgrænt grænmeti, járnbætt morgunkorn, gróf korn og heilkorna gróft brauð. 

D-vítamín er einnig mikilvægt á meðgöngu en það hjálpar líkamanum að nýta kalk. Því miður er ekki nægileg sól á Íslandi til að D-vítamín myndist í húðinni yfir vetrarmánuðina. En feitur fiskur líkt og lax, bleikja og makríl inniheldur D-vítamín. Ráðlagður dagskammtur er 600 alþjóðaeiningar eða 15 míkrógrömm á dag en ekki er ráðlagt að taka meira nema einhver ástæða liggi fyrir. 

Ég vona að þetta svari einhverju en ef ógleðin heldur áfram þá væri gott að hafa ljósmóður þína í meðgönguvernd með í ráðum hvort að járntöflurnar séu nauðsynlegar. Gangi þér vel.

Bestu kveðjur, Elfa Lind Einarsdóttir, ljósmóðir. 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.