Blaðra á geirvörtu

29.01.2011
Sæl!
Ég er með vikugamlan son minn á brjósti og allt hefur gengið vel. Hann tók geirvörtuna strax rétt og drekkur mikið og vel. Nú í gær fór ég hins vegar að verða aum öðru megin og á þeirri geirvörtu er hálfgerð blaðra. Hún er lítil og glær, lítur helst út eins og núningsblaðra (enda er drengurinn það mikið á brjóstinu að það gæti vel verið. Ég er dálítið aum, sérstaklega þegar hann byrjar að sjúga. Er þetta eitthvað sem ég þarf að hafa áhyggjur af? Get ég gert eitthvað í þessu?
Bestu kveðjur.

 
Sæl og blessuð!
Yfirleitt þarf ekki að hafa áhyggjur af blöðrum á vörtum. Þær myndast gjarnan á fyrstu dögunum og eru mjög saklausar. Annaðhvort springa þær og það myndast örlítið sár sem jafnar sig á sama degi. Eða þær hjaðna bara niður og hverfa. Þær valda auðvitað eymslum en þau eru yfirleitt smávægileg og jafna sig fljótt. Nei, þú átt ekkert að gera.
Bestu kveðjur.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
29. janúar 2011.