Spurt og svarað

05. febrúar 2023

6 mánaða barn vill ekki borða

Daginn, Við eigum einn 6 mánaða strák og síðustu vikur hefur verið erfitt að gefa honum að borða. Hann tekur fyrstu skeiðarnar af mat sem við gefum honum en síðan verður hann pirraður og nennir ekki meir. Höfum verið að gefa honum mjólkurlausan graut (með formúlu), kjúkling, fisk, brauð, ávaxtastöppur og skvísur. Einnig hefur verið verið vesen með pelagjöf (hann er á Neocate LCP vegna mjólkurofnæmis frá 1 mánaða aldri) en síðustu 2-3 mánuði höfum við þurft að svæfa hann nánast svo hann drekki úr pelanum. Hvað er til ráða?

Góðan dag og takk fyrir fyrirspurnina.

Það getur tekið tíma fyrir börnin að venjast fastri fæðu. Líkt og þú gerir svo vel er mikilvægt að halda fjölbreytileikanum góðum en auk þess er gott að prófa mismunandi uppsetningar og áferðir til að auka við fjölbreytileikann og sömuleiðis auka áhuga þeirra. Gott er að blanda mjólk sem barnið þekkir við grauta og bæta fitu við matinn líkt og matarolíu, saltslausu smjöri eða hörfræolíu.

Gott er að gera matarstundir að notalegum samverustundum með barninu, setjast niður með því og borða saman. Þá er sniðugt að spjalla við barnið, fá að smakka hjá barninu og leyfðu því að samkka af þínum disk. Gaman er að tala um matinn, t.d. litinn, bragðið og áferð til að gera matinn áhugaverðari og skemmtilegri. Mikilvægt er að hætta ekki að reyna og eiga áfram þessar samverustundir þrátt fyrir lítinn áhuga. Þau taka sér mislangan tíma í að kynnast fæðunni og eðlilegt að þau borði lítið fyrstu vikurnar. Ef þú hefur áhyggjur af næringu barnsins hvet ég þig að hafa samband við ungbarnaverndina á þinni heilsugæslustöð fyrir frekari ráðleggingar.

Varðandi pelagjafirnar gæti hjálpað ykkur að fara afsíðis þar sem ekkert áreiti er til staðar og jafnvel dimma ljósin á meðan það drekkur. Fyrir sum börn virkar einnig að ganga um með barnið á meðan barnið drekkur. Frekari ráð er hægt að nálgast í ungbarnaverndinni.

Bestu kveðjur, Ilmur Björg Einarsdóttir, ljómsóðir.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.