Blóð í þvagi hjá 2ja mánaða

08.12.2010
Góðan daginn og takk fyrir æðislegan vef.
Hann hefur hjálpað mér mjög mikið. Ég er með einn 2 mánaða gutta og mér fannst eins og það væri smá blóðblettur í bleyjunni hans í morgun. Hef verið að leita af þessu á netinu en ekkert fundið. Vitið þið hvað þetta getur verið? Að öðru leyti gengur allt mjög vel. Nema alltaf í kringum 2 leytið á nóttunni þá umbyltist hann og grenjar og grenjar. Það er samt eins og það sé ekkert að  því að hann nær alltaf að róast. Við förum alltaf að sofa um þetta leyti. Hann er að fá minifom dropa og þeir virka alveg á hann. Ein önnur spurning í sambandi við brjóstamjólk. Ég er semsagt að mjólka mig og setja í frysti til að safna aðeins. Þegar ég merki pokana með dagsetningu ætti ég að merkja líka hvenær dags þetta var? Fyrst að mjólkin er ekki alltaf eins.
Bestu kveðjur.

 
Sæl og blessuð!
Þetta gæti verið bara tilfallandi blóðdropi sem merkir ekkert sérstakt en ef fer að blæða meira skaltu spyrja barnalækni álits. Óróleikinn á þessum ákveðna tíma nætur gæti tengst því að þið eruð að fara í háttinn. Hann gæti viljað koma til ykkar. Og varðandi síðustu spurninguna þá er alltaf góð regla að merkja mjólk bæði með dagsetningu og klukku. Best er svo að gefa mjólkina á svipuðum tíma og hún var mjólkuð.
Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. desember 2010.