Spurt og svarað

01. mars 2007

Blöðrur og hvítar bólur á geirvörtubaug

Sælar!

Ég á 4 mánaða gamlan strák sem er á brjósti.  Brjóstagjöfin hefur allan tímann gengið mjög vel og ekkert yfir henni að kvarta.  Þegar ég var að fara að gefa honum í dag tók ég eftir því að á öðru brjóstinu, aðallega á geirvörtubaugnum voru nokkrar pínulitlar blöðrur sem minntu mig á brunablöðrur og það virtist vera glær vökvi í þeim. Getið þið sagt mér hvað þetta er og hvort þetta sé eðlilegt?

Ég fæ líka pínulitlar hvítar bólur á sama svæði og ef ég kreisti þær kemur hvítt út úr þeim.  Eru það þessar svokölluðu mjólkurbólur?

Takk fyrir, ED:)


Sæl og blessuð ED.

Ef við tölum fyrst um hvítu bólurnar sem þú heldur að séu mjólkurbólur þá er svo alls ekki. Þetta eru kirtlar sem hafa það hlutverk að smyrja og mýkja vörtusvæðið. Þeir heita Montgomery kirtlar. Geta verið hvítir, bleikir, rauðir, brúnir og svartir. Það fer eftir húðgerð viðkomandi. Það er oft hægt að kreista út úr þeim fituna og stundum er örlítill mjólkurgangur undir þeim. Þá er hægt að kreista mjólk úr þeim eða að hún lekur sjálf. Þessa kirtla á maður að láta algjörlega vera og leyfa þeim að vinna sitt starf í friði. Stöku sinnum kemst sýking í svona kirtil sem stækkar þá og verður rauður og bólginn. Það er miklu líklegra að það gerist ef maður er að fikta í þeim. Mér finnst líklegt að þú sért að kljást við svona sýkingu. Þá þarftu að fá skoðun og meðferð með sýklalyfjum. 

Það eru á hinn bóginn til veirusýkingar sem lýsa sér með blöðrum sem líkjast brunablöðrum. Þá þarftu að hylja þær svo barnið komist ekki í snertingu við þær. Þannig að hvort sem um er að ræða þá þarftu að fara á heilsugæslu eða til læknis og fá skoðun og úrskurð.

Gangi þér vel.   


Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. mars 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.