Spurt og svarað

25. apríl 2023

Gangsetning

Góðan dag. Ég er gengin 35v og legbotnshæðin mín hefur mælst 4-5cm yfir í síðustu 3 mæðraskoðunum og er í 98 centile skv. vaxtarsónar. Ég sjálf er 1.81cm og líður vel í líkamanum. Við ljósmóðirin mín höfum rætt gangsetningu en langar að fá annað álit á því. Sé að hér inni á ljosmodir.is er pistill um gangsetningar og þar er nefnt að það að ganga með stórt barn sé ekki forsenda fyrir því að fara í gangsetningu. Ég er samt hrædd við að enda í keisara eða erfiðri fæðingu ef að ég mun ganga fulla meðgöngu en er samt lika hrædd við að fara í gangsetningu. Hver er ykkar skoðun á þessu?

…til að bæta við að þá er ég búin að fara í sykurþolpróf og ég var innan marka í öllum mælingum svo búið er að útiloka meðgöngusykursýki

Góðan dag og takk fyrir fyrirspurnina, 

Erfitt er að segja til um einstök tilfelli því alltaf þarf að meta hverja meðgöngu og tilfelli hvert fyrir sig. Gangsetning er inngrip inn í eðlilegt ferli meðgöngu en getur verið nauðsynlegt til að tryggja öryggi móður og barns. Því þarf alltaf að meta kosti og galla hverju sinni. 

Stórt barn er oftast ekki ábending fyrir gangsetningu. Enda segir það ekki alltaf til um hvernig fæðingin mun ganga. Einnig eru alltaf einhver skekkjumörk í vaxtarsónar. 

Það fer þó eftir hvort það sé einhver önnur ástæða sé fyrir stærri kúlu og barni. T.d. ef einstaklingur er með meðgöngusykursýki eða of mikið legvatn. Þá gæti það verið ábending fyrir framköllun fæðingar um og fyrir settan fæðingardag. Í þínu tilfelli er það ekki svo það er ekki önnur ábending. 

Þó er það alltaf, val hverrar konu/fjölskyldu í samráði við ljósmóður og fæðingarlækna hvort framköllun fæðingar sé rétta skrefið. 

Oftast er það ekki fyrr en meðganga er að minnsta kosti fullgenginn (37 vikur) og enn oftar ekki fyrr í kringum settan fæðingardag. Fyrr ef það er talin áhætta af lengri fæðingu, fyrir barn eða móður. 

Oft fer líkaminn sjálfur af stað á sínum tíma, í kringum settan fæðingardag. Flestar konur eru búinar að fæða fyrir viku 41 meðgöngu. Mitt ráð væri að ræða aftur við ljósmóður þína í meðgönguvernd. Það er mjög líklegt að þú þurfir ekki á neinni gangsetningu að halda vegna þess líkaminnn þínn fari sjálfur af stað. Ef það er ráðlagt að fara í gangsetningu í þínu tilfelli, þá er mikilvægt að vita hvenær það er á meðgöngunni og af hverju það er ráðlagt á þeim tíma. Barn í 98centile er ekki ábending fyrir framköllun fæðingar fyrir settan fæðingardag að öllu jöfnu. 

Gangi þér vel. Kær kveðja, Elfa Lind Einarsdóttir, ljósmóðir. 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.