Bóla á geirvörtu

06.12.2006

Sæl!

Ég er með 2ja vikna stelpuna mína á brjósti og hún er fyrsta barn.
Brjóstagjöfin gengur vel og hún er rosalega vær og góð.  En fyrir nokkrum dögum fór mér að verða illt í annarri geirvörtunni og það myndaðist smá hnúður á henni, svo varð hann hvítur og ég kreisti úr honum gröft.  Ég er duglega að hreinsa þetta en það er ekki að fara.  Getur verið að þetta sé bara eins og venjuleg graftarbóla eða veistu um eitthvað svipað og það sem ég er búin að lýsa?

Kveðja, Svana.


Sæl og blessuð Svana!

Það sem þú ert að lýsa er oftast kölluð mjólkurbóla en á þó lítið skylt við venjulega bólu. Það sem þú ert væntanlega að kreista út er ekki gröftur heldur mjólk í ostkenndu formi. Það sem er aðalatriðið er að þú ert búin að opna „bóluna“. Það er lækningin á þessu ástandi. Ekki vera samt meira að fikta í þessu. Það er mikilvægt að þú haldir þessu hreinu eins og þú hefur verið að gera en látir þetta að öðru leyti vera. Líkaminn og sog barnsins sjá um að þetta hreinsist og lokist aftur.

Með bestu kveðju,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
6. desember 2006.