Spurt og svarað

08. desember 2013

Bólga í handarkrika

Sælar kæru ljósmæður!
Mig langar að forvitnast um hvort það geti tengst brjóstagjöf að finna fyrir eymslum og bólgu undir handarkrika? Ég hef fundið fyrir þessu annað slagið og langar að vita hvort þetta tvennt tengist eða hvort e-d allt annað sé á ferðinni af ykkar mati! Kv E

Sæl og blessuð E!
Það er til fyrirbæri sem heitir aukabrjóst. Það er brjóstvefur sem liggur upp í handarkrikann öðru eða báðu megin. Þessi vefur verður jafnt fyrir hormónasveiflum brjóstagjafarinnar og vefurinn í brjóstunum. Þannig finna konur oft verulega fyrir því á fyrstu viku brjóstagjafar þegar stálmi er í brjóstum. Seinna geta konur fundið fyrir óþægindum og fyrirferð þegar brjóst eru óvenjuþrútin af einhverjum ástæðum en oftast hjaðnar þetta eftir 4-6 vikur. Það fylgir ekki sögunni hvað er langt síðan þú fæddir þannig að ef meira en 3 mánuðir eru frá fæðingu myndi ég ráðleggja þér að láta skoða þetta. Hafðu í huga að aukabrjóst er algjörlega heilbrigður og eðlilegur vefur og er látinn eiga sig ef um hann er að ræða.
Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. desember 2013.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.