Spurt og svarað

26. ágúst 2023

Hvað er ég komin langt ?

Góðan daginn Ég for til kvennsjukdomalæknis fyrir 2 dögum ( 24 ágúst ) sem sagði að hann sæi einhverja loftbólu í leginu en gat ekki staðfest þungun. Ég tek svo óléttu próf næsta dag og fæ daufa linu sem er aðeins búin að dekkjast í dag. ( 26 ágúst) Seinustu blæðingar voru 24 júlí og á ég að byrja á blæðingum á þriðjudaginn næsta. Ég hélt ég væri komin þá 4 vikur og einhverja daga en samkvæmt hér á síðunni er ég ekki nema 3 vikur og nokkra daga ? Hvort er það ? Og svo annað er eðlilegt að línan sé dauf á 3 eða 4 viku ? Því ég veit ekkert hvað ég er þá gengin langt ? Takk :)

Góðan dag og takk fyrir fyrirspurnina og til hamingju með þungunina. 

Reiknivélin hér á síðunni tekur með í reikninginn lengd tíðahrings. Ef tíðahringurinn er almennt lengri getur það haft áhrif á egglostímabil og þar með hvenær krílið kom undir. Það er þó kannski ekki hægt að setja nákvæman dag með þessari reiknivél en ef tíðahringur hefur verið reglulegur getur hún gefið upp væntanlegan settan fæðingardag barnsins. Þú ert líklega gengin um 3-4 vikur. Erfitt er að segja til um nákvæmari tíma fyrr en hægt er að fara í snemmsónar/fósturgreiningu. 

Það er eðlilegt að línan sé dauf á þungunarprófum fyrst um sinn. Eitt jákvætt þungunarpróf merkir þungun og því oftast óþarfi að taka önnur próf. Þó það geti hjálpað huganum að átta sig á þunguninni. 

Þegar farið er mjög snemma í snemm sónar eða sónar snemma á meðgöngu þá er sést yfirleitt ekki fóstur með hjartslætti. Það er eðlilegt fyrir 5-6 vikna meðgöngu. Þá sést oft fóstursekkur og nestispoki. 

Gangi þér vel og bestu kveðjur, Elfa Lind Einarsdóttir, ljósmóðir. 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.