Bólur á brjóstunum

07.08.2010

Halló og takk fyrir góðan vef!

Mig langar að spyrja ykkur um eitt. Ég á einn dreng sem er að verða 10 ára og síðan á þeirri meðgöngu hef ég verið með bólur á brúnasvæðinu á geirvörtunum. Þetta eru bara eins og fílapenslar sem eru mjög stórir. Þeir eru hvítir og ógeðslegir að sjá. Ég kreisti þetta stundum og það kemur þykkur gröftur en þó hvítur að lit út úr þessu. Þetta eru nokkrir klasar á hvoru brjósti. Grunar að þetta séu stíflaðir fitukirtlar en finnst þetta ógeðslegt. Núna er ég ólétt að barni númer tvö og er mikið að spá hvernig ég á að umgangast þessar bólur. Á ég að þrífa þetta með spritti og svo skola vel með vatni áður en ég legg barnið á brjóst eða þarf ég ekkert að gera í þessu. Á ég að "tæma" bólurnar eða láta gröftinn renna sjálfan úr þeim. Með von um svör.

Ein óörugg.

 


Sæll og blessuð „Ein óörugg“!

Þessar bólur eins og þú nefnir eru fitukirtlar sem hafa mjög sérstakt hlutverk í brjóstagjöf. Þeir sjá um að mýkja og smyrja vörtu og vörtubaug fyrir barnið. Þú hefðir ekki átt að vera kreista þá því þá örvast þeir óeðlilega mikið og stækka. Það sem kemur úr þeim er ekki gröftur en getur þó alveg líkst honum. Miðað við lýsingu eru kirtlarnir ekki stíflaðir eða óeðlilegir því þá fengirðu roða, hita og verki í þá. Nú er um að gera fyrir þig að láta kirtlana alveg í friði fram að næstu brjóstagjöf og leyfa þeim að jafna sig og vinna síðan sína vinnu. Þú átt ekki að þvo sérstaklega eða spritta heldur bara fjarlægja það sem kemur af sjálfu sér úr þeim.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. ágúst 2010.