Sælar, Ég er gengin 8 vikur og það byrjaði að blæða hjá mér um daginn. Ég hringdi á bráðadeild kvenna og fékk að koma í skoðun. Þar var ég greind með Subchorionic hemorrhage/hematoma og mér sagt að þetta gæti farið á báðar vegu, endað vel eða illa. Fóstrið er þó með sterkan og fallegan púls í sónar upp á kvennadeild. Svo fór ég í snemmsónar stuttu seinna og mér tjáð að hafa engar áhyggjur þar sem fóstrinu líði vel og að púlsinn sé góður en það hinsvegar blæðir ennþá en mismikið milli daga og kramparnir eru einnig mismiklir milli daga. Í mínu sjokki að halda að ég hafi misst fóstrið gat ég ómögulega meðtekið allar upplýsingarnar sem ég fékk. Ég finn ekkert um þetta á íslensku þegar ég leita á netinu og mjög misvísandi upplýsingar um þetta á ensku. Er til íslenskt heiti yfir þetta? Getið þið útskýrt þetta fyrir mér og mögulega fleiri konum sem eru að ganga í gegnum það sama? Og eruð þið með einhver ráð? Fyrirfram þakkir ??
Takk fyrir fyrirspurnina,
Blæðing á fyrsta þriðjungi meðgöngu þýðir ekki alltaf að fósturlát. En þó getur það verið að sjálfsögðu áhyggjuefni og valdið streitu hjá þeim sem það upplifa. Mikilvægt er að leita til ljósmóður/ bráðadeild kvenna ef verkir eða blæðing eru mikið og/eða ef einhverjar áhyggjur eru.
Subchorionic hemorrhage/hematoma er blæðing utan við belginn sem barnið er í. Sem sagt: barnið er varið inn í leginu með tveimur himnum/belgjum sem tengjast fylgjunni. Hér er ágæt mynd sem sýnir frá þessari blæðingu. Chorion er æðabelgurinn sem er ytri belgurinn utan um barnið, við legvegginn sjálfan. Blæðingin væri þá á milli belgsins og legveggsins.
Talið er blæðingin verði þegar belgurinn losnar að hluta til frá legveggnum. Blóðið sem hefur komið verður því annað hvort að vera tekið upp að líkamanum eða ferðast út um leggöng. En algengasta einkenni subchorionic blæðingar er blæðing um leggöng en getur það valdið vægum túrverkjum.
Ég ráðlegg þér að ræða við ljósmóður þína í meðgönguvernd, ræða við þína nánustu sem þér finnst gott að leita ráða til á meðan þessu stendur. Mikilvægt er að fá góðan stuðning í þessari biðstöðu og hlúa vel að sér. Ekkert sem þú ert að gera er að valda þessu. Gangi ykkur vel og farðu vel með þig.
Kær kveðja, Elfa Lind Einarsdóttir, ljósmóðir.