Bólur og svitakóf eftir brjóstagjöf

06.08.2010

Sælar!

Ég var með barnið mitt á brjósti til 8 mánaða aldurs. Nú eru u.þ.b. 2 mánuðir síðan við hættum og síðan er mér búið að líða mjög illa með mikil útbrot/bólur og svitaköst. Ég hugsa mjög vel um húðina og þetta er mjög slæmt! Það er líka alveg óþolandi að svitna svona mikið. Ég var slæm sem unglingur en hins vegar mjög góð alla meðgönguna og brjóstagjöfina. Ég hef aldrei heyrt aðrar mæður kvarta yfir þessu.Er þetta eðlilegt? Ef svo er, get ég eitthvað gert og hversu lengi get ég búist við að þetta haldi svona áfram?

Kveðja,Dögg .


 

Sæl og blessuð Dögg!

Mæður tala stundum um svona einkenni ef þær hætta brjóstagjöfinni mjög hratt. Mér finnst það hins vegar fremur ólíklegt að þú hafið gert það eftir þetta langan tíma. Þau einkenni eru gjarnan 3-6 mánuði að jafna sig að mestu. En ef þetta eru svona mikil einkenni og ekkert að draga úr þeim held ég að væri ráðlegt að fá viðtal við lækni og jafnvel mæla hormónabúskapinn ef ástæða þykir til.

Með von um þína betri líðan.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
6. ágúst 2010.