Bráðaofnæmi eftir fæðingu

26.10.2007

Mig langar ofsalega til að vita hvort það sé algengt að konur taki upp eða  fái allt í einu fæðuofnæmi eftir fæðingu? Þannig er að þegar ég fæ mér nokkra sopa af rauðvíni, hvítvíni eða bjór þá steypist ég strax upp í rauðum upphleyptum flekkjum í andlitinu, finn fyrir kláða og hitna svakalega í framan. Ég á tveggja mánaða gamla dóttur og hún er mitt þriðja barn - en þetta hefur aldrei komið fyrir áður! Gæti verið að þetta sé bara þegar ég er með hana á brjósti? Eða verður þetta svona það sem eftir er? Ég er mikil rauðvínskona og finnst gott að fá mér eitt glas með góðum mat þannig að ég er ekki búin að sætta mig alveg við þetta ástand. Mig langar bara svo að vita hvort að þetta sé algengt - eða á ég bara að drífa mig til læknis? ;) Vonandi heyri ég frá þér fljótlega. Takk fyrir góðan vef.

Kveðja, Elsa.Sæl og blessuð Elsa.

Svona ofnæmi kemur brjóstagjöfinni ekkert við. Það verða hins vegar ýmsar breytingar á meðgöngunni sem gætu hugsanlega hleypt svona af stað. Ég er ekki nógu vel að mér í ofnæmisfræði þannig að ég ráðlegg þér að leita til einhvers sérfræðings um þessi mál. Nei, þetta er ekki algengt í tengslum við brjóstagjöf.

Gangi þér vel.    

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
26. október 2007.