Bréf frá móður með innfallnar geirvörtur

10.07.2006

Eftirfarandi bréf barst frá móður sem vildi deila reynslu sinni með okkur. Bestu þakkir fyrir bréfið.


Sælar kæru ljósmæður og takk æðislega fyrir frábæran vef.

Ég er búin að vera mikið að vafra hér inni og hef tekið eftir að í sambandi við brjóstagjöf og vandamál tengd innföllnum/erfiðum geirvörtum.

Ég á í dag 2ja vikna gamlan son og var ég með miklar áhyggjur á sínum tíma af brjóstagjöfinni sökum innfallinna geirvarta, nefndi það við ljósmóður mína og hún pantaði tíma fyrir mig hjá brjóstagjafaráðgjafa á LSH. Ég fór til ráðgjafans og var hún alveg sammála því að geirvörturnar væru innfallnar, önnur verr en hin, og ráðlagði hún mér að kaupa svona geirvörtuformara. Ég gerði það og notaði á meðgöngunni og þvílíkur munur í dag. Það er ekkert vandamál að koma drengnum á brjóst og grípur hann vörtuna alveg eins og skot, tek það fram að ég er enn að nota formarann. Eins höfðu ljósmæðurnar á Sængurkvennaganginum orð af  því við mig að þær hefðu nú sjaldan séð svona stórar og góðar geirvörtur. Ég er mjög ánægð með þessa formara og fást þeir í öllum apótekum. Ég hef alveg sloppið við að þurfa að nota þessa blessuðu mexikanahatta, sem ég vildi alls ekki þurfa að gera því með eldri stelpuna mína þurfti ég að nota hattinn og tel ég það hafa skemmt alveg fyrir mér með brjóstagjöfina þá. Mæli ég eindregið með því við konur sem eiga við vandamála að stríða með geirvörturnar að fá sér svona og nota.  Þetta er mjög þægilegt upp á leka því þetta tekur við lekanum líka og svo bara hellir maður úr í vaskinn.

Kveðja mamma með innfallnar geirvörtur.