Brenna konur meira með meir brjóstagjöf

07.02.2010

Sælar og takk fyrir þennan frábæra vef!

Ég á lítinn tveggja mánaða gamlann strák og hefur gengið mjög vel hjá okkur. Ég er með strákinn á brjósti og þurrmjólk. Ég held að hlutföllin séu um það bil 40/60, þ.e. 40 brjóstamjólk og 60 þurrmjólk. Strákurinn minn er að þyngjast og stækka vel. Brjóstagjöfin fór mjög hægt af stað og hefur hann alltaf fengið ábót með hverri gjöf. Ég hef samt mikinn áhuga á því að halda brjóstgjöfinni áfram og vona að hún aukist með tímanum. Ég er núna á leiðinni í átak, ætla að byrja í ræktinni og fara að borða hollt og hef heyrt að það geti haft áhrif á framleiðsluna hjá mér. Er eitthvað til í þessu? Get ég aukið eða minnkað brjóstamjólkina hjá mér með hreyfingu og breytingu á matarræði? Ég er líka forvitin að vita hvort konur léttist meira með barn á brjósti en konur sem eru ekki með barn á brjósti eða bæði með barn á brjósti ábót?

Takk fyrir.

 


Sæl og blessuð!

Ég vona að þér gangi að auka hlut brjóstamjólkurinnar en það kostar töluverða vinnu eftir svona langan tíma. Það er rétt hjá þér að það hefur oft jákvæð áhrif að fara að hreyfa sig en það er þó oft ekkert sem er afgerandi. Mataræðið breytir heldur ekki mjólkurmagninu. Það sem skiptir máli er að fá barnið til að drekka meira magn og oftar og þannig þvinga brjóstin til að fara að framleiða meira. Því fylgir oftast að minnka magn þurrmjólkurinnar og þannig er þetta unnið sitt á hvað í einhvern tíma. Varðandi síðustu spurninguna þá léttast konur eingöngu með barn á brjósti mest, síðan konur með blandaða gjöf og minnst ef að þær eru ekki með barnið á brjósti.

Vona að þér gangi allt í haginn.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. febrúar 2010.