Breytt mataræði með barn á brjósti

01.02.2008

Sæl

Ég var að velta því fyrir mér, hvort að breytt mataræði gæti farið illa í brjóstagjöf.  Mig langar að  breyta mataræðinu hjá mér, og fara út í grænmetisfæði eða nota safapressu.  Getur það farið illa í magann á dóttur
minni sem er 3mán gömul.

Kveðja DóraSæl og blessuð Dóra.

Það er í góðu lagi að breyta mataræði í brjóstagjöf. Það hefur engin áhrif á maga barna. Það er hins vegar spurning hvort rétt sé að skipta alveg yfir í grænmetisfæði á meðan barnið er svo ungt. Það er nokkuð vandasamt að finna rétta samsetningu á grænmetisfæði til að tryggja nægilegt magn nauðsynlegra fitusýra. Þetta er jú hægt að læra og kemur oft með æfingunni en það er oft viss aðlögunartími fyrir það. Vanar grænmetisætur geta gert þetta með glans og kannski þekkirðu einhverja með reynslu.

Það er samt ekki þorandi annað en ráðleggja þér að bíða aðeins með svona alger umskipti. Það er allt í lagi að fara í grænmetisfæði að mestu.  En reyndu að fá eitthvað úr dýraríkinu til að byrja með.

Með heilsukveðjum.               

Katrín Edda Magnúsdóttir,
brjóstagjafaráðgjafi og ljósmóðir.
2. febrúar 2008.