Spurt og svarað

30. apríl 2006

Breytt viðmið á vexti ungbarna

Sá í Morgunblaðinu að WHO er að vinna í að breyta viðmiðum á vexti ungabarna en þau gömlu voru byggð á því að börn nærðust einnig á þurrmjólk.  Samkvæmt þessum nýju viðmiðum er dóttir mín ekki lengur of létt heldur rétt undir eðlilegri þyngd hjá 1 árs barni. Hún var við 1 árs aldur 8,5 kg en var þá talin of létt og við erum stöðugt undir eftirliti. Hún nærðist eingöngu á brjósti fyrstu 5 mánuðina en þá var mér skipað að gefa henni eitthvað meira þar sem hún var greinilega ekki að fá nóg.  Ég vil taka það fram að bæði ég og maðurinn minn erum grönn og höfum alltaf verið það, eins er ég í minni kantinum ef svo má segja. Eins borðaði hún alltaf vel og gerir en. Dagmamman hefur oft undrast á því hvað þessi litli kroppur getir látið í sig. Fyrsta árið í lífi hennar var mér erfitt þar sem ég þurfti stöðugt að búa við ásakanir um að ég væri ekki að gefa henni nógu mikinn mat.  Hún er þó mjög heilbrigð, hreyfir sig mikið, var sem dæmi farin að ganga um 10 mánaða og sparka bolta 12 mánaða.

Erum við ekki stundum aðeins of upptekinn við það að taka þessum þyngdarstuðlum bókstaflega? Ég þjáðist af fæðingaþunglyndi og síðan tók við mikil vanlíðan yfir því að ég væri slæm móðir vegna þess að barnið mitt þyngdist ekki eðlilega. Á sama tíma var verið að miða við börn sem nærðust á þurrmjólk.  Ég hef mikið fylgst með umræðunni á vefnum hjá ykkur, oft koma spurningar frá konum sem hafa áhyggjur af því hvort börnin séu ekki að fá nóg, við mömmur höfum miklar áhyggjur af þessu og við þurfum stuðning, við sem eigum grönn en heilbrigð börn þurfum að fá að heyra að það að vera létt ungabarn getur líka verið í lagi. Það eru ekki öll börn sem þyngjast mikið og feit börn eru ekki endilega heilbrigðustu börnin.  En annars er gott að vita að dóttir mín sem var oflétt í gær er í lagi í dag. Afsakið þessa langloku, ég er ekki að búast við svari þurfti bara aðeins að pústa.


Sæl og blessuð.   

Það gleður mig mikið að þú skulir vekja máls á þessu máli sem hefur verið hitamál í mörg, mörg ár meðal brjóstagjafaráðgjafa. Það hefur lengi verið vitað að börn sem eingöngu eru á brjósti þyngjast eftir öðru ferli en önnur börn.Og þar sem brjóstagjafaráðgjöfum hefur þótt sýnt að börn eingöngu á brjósti ættu að vera normið væri rétt að þeirra kúrfa væri sú sem miða ætti við en ekki kúrfa barna á blandaðri næringu.

Börn sem eru eingöngu á brjósti þyngjast yfirleitt hratt fyrstu 3 mánuðina. Þá hægja þau verulega á sér, sum standa í stað í smá tíma önnur léttast pínulítið en síðan fara þau að þyngjast hægar en börn á þurrmjólk. Það er því yfirleitt á þessum tíma sem þau fara út af hinni gömlu, viðteknu kúrfu þurrmjólkurbarna eða barna á blandaðri næringu. Viðbrögð margra við þessu hafa því miður verið þau að álíta barnið ekki þyngjast nægilega og fyrirskipað ábót eða jafnvel mat til þess að koma þeim upp í kúrfuna. Þetta hefur oftast eyðilagt brjóstagjöfina fyrir þeim mæðrum sem hafa í þessu lent og það má gera ráð fyrir að sé meiri hluti mæðra.

Börn sem eru mikið á brjósti fyrstu mánuðina og/eða árin eru yfirleitt grönn og spengileg. Þau hafa mikla hreyfigetu og eru fljót til. Ég held stundum að enn leifi af gömlum hörmungartímum þjóðarinnar þegar feit börn þýddu að afkoma heimilisins var góð en grönn börn fátækt, þegar að slíkt áhersla á fitu er höfð í fyrirrúmi. Á þessum síðustu tímum offitu í heiminum ættum við einmitt að vera ánægðust með grönnu, spengilegu börnin. Það er þó rétt að geta þess að sum brjóstabörn eingöngu á brjósti geta verið ansi vel í holdum (eða á venjulegu máli spikfeit). Það hefur þó sýnt sig að vera miklu heilbrigðari fita, þ.e.a.s. þau börn virðast losna auðveldlega við fituna með aukinni hreyfingu og er ekki hættara við að verða feitir fullorðnir.

Ég er hjartanlega sammála þér að það eru að renna upp góðir tímar þegar mæður með grönnu, heilbrigðu börnin fara að fá þann stuðning og hlýhug frá umhverfinu sem þær eiga rétt á.

Bestu þakkir,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
30. apríl 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.