Spurt og svarað

26. mars 2007

Breyttar drykkjarvenjur hjá fjögurra mánaða

Þetta er vefur ársins að mínu mati!!! Takk fyrir hann ljósmæður.

Ég hef áhyggjur af gjafamynstri hjá fjögurra mánaða syni mínum og langar að leita ráða hjá ykkur. Undanfarna daga hefur hann hafnað brjóstinu töluvert oft og pirrast bara og fer stundum að gráta ef ég legg hann á brjóst. Ég hef því áhyggjur af því að hann sé ekki að fá nóg. Hann hefur yfirleitt drukkið frekar oft og verið snöggur að því, fjöldinn er kannski mér að kenna því ég er alltaf að reyna að fá hann til að þyngjast meira. Núna sem sagt drekkur hann mun sjaldnar en er aðeins lengur að í einu. 10-15 mínútna gjöf hjá honum telst löng gjöf! Hann þyngdist frá 9 vikna til þriggja mánaða um 800 grömm og milli þriggja og fjögurra mánaða um 695 grömm. Hann fæddist léttur og léttist mikið fyrstu dagana (12.5%). Mér var sagt að láta hann fá þurrmjólkurábót sem ég gerði en var aldrei sátt við það. Eftir mánuð leitaði ég sem betur fer til brjóstagjafarráðgjafa og með hennar aðstoð losuðum við okkur við þurrmjólkina og hefur hann verið eingöngu á brjósti síðan. Er eðlilegt að drykkjarvenjurnar breytist svona mikið á stuttum tíma og er þetta eitthvað sem ég á að hafa áhyggjur af?

Ég leigði mér ungbarnavog í dag í áhyggjukasti og ætla að prófa að mjólkurvigta hann og fylgjast með þyngdinni hjá honum næstu vikur. Eru einhverjar tölur sem ég á að miða við sem lágmarksþyngdaraukningu á dag? Brjóstagjafarráðgjafinn miðaði við 15 grömm þegar hann var 5 vikna, hefur það eitthvað breyst með hækkandi aldri? Þegar ég mjólkurvigta hann hvað á ég að miða við?

Bestu kveðjur og með fyrirfram þökk, ein sem hefur kannski of miklar áhyggjur.


Sæl og blessuð!

Það er alveg eðlilegt að drykkjarvenjur hans breytist þegar hann er orðin svona stór, á þessum aldri drekka börnin sjaldnar og lengur í einu, það er eðlilegt. Ég ætla að ráðleggja þér að mjólkurvigta ekki, vegna þess að börnin drekka mismikið í mál (rannsóknir hafa sýnt það)- og með því að mjólkurvigta það veldur bara meiri áhyggjum.  Eitt enn þegar börnin eru orðin svona stór þá hægir á þyngdaraukningunni hjá þeim - þau þyngjast minna núna miðað við fyrstu vikurnar. Ég vil ráðleggja þér að fá aukavigtun fyrir hann í heilsugæslunni og sjá hvort hann fylgi ekki sinni kúrfu - (í vaxtarkúrfunni) - það er auðveldast að sjá hvort börnin þyngist ekki eðlilega út frá þeirra vaxtarkúrfu og ræða þá við hjúkrunarfræðinginn ykkar í leiðinni um þessi mál.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
26. mars 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.