Breyttur svefntími hjá 5 mánaða

18.09.2006

Kæru ljósmæður!

Ég á dóttur sem er nýorðin 5 mánaða. Fyrir 2-3 vikum fór hún að vakna örar á nóttunni til að drekka, 3 mánaða svaf hún í 8 tíma allar nætur, en núna er hún að vakna á 2 tíma fresti alla nóttina og drekkur þá alveg helling. Er þetta eðlilegt að þetta gamalt barn er að vakna svona oft? Hvað þýðir þetta? Hún er eingöngu á brjósti og langar mig að halda því þannig aðeins áfram allavega. Er þetta ástand komið til að vera? Er ég að stefna í offramleiðslu með því að gefa henni svona oft?

Bestu kveðjur, Snúllu mamma.


Sæl og blessuð Snúllu mamma.

Það eru 2 möguleikar í stöðunni hjá svo gömlu barni. Stundum koma vaxtarsprettir fram svona. Þá fjölga þau gjöfunum sínum bara á hluta sólarhringsins. Stundum lendir það á nóttunni. Ef svo er ætti ástandið að breytast aftur í fyrra horf eftir nokkra daga án þess að þú gerir neitt. Hinn möguleikinn er að eitthvað hefur breyst í gjafamynstrinu að deginum. Þá fær barnið ekki næga næringu úr daggjöfunum og bætir sér það upp með því að fara að vakna að nóttunni til að drekka. Þér er alveg óhætt að trúa því að barnið þarf næringuna úr þessum gjöfum. Það er ekki að gera þetta að gamni sínu. Þannig að þá þarftu að gera eitthvað til að bæta daggjafirnar. Stundum nægir að bæta gjafirnar stuttu fyrir svefninn. Gefa aukagjöf eða gefa skiptigjöf fyrir svefninn. Það er allavega alveg ljóst að þetta ætti ekki að vera komið til að vera. Nei, það er engin hætta á offramleiðslu. Framleiðslan eykst en það er jú það sem barnið er að kalla eftir. Vona að þetta breytist til batnaðar.      

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. september 2006.