Spurt og svarað

05. júní 2008

Brjóst fyrir snuð

Sælar!

Ég las í einhverju svarinu hér að börn noti brjóst aldrei fyrir snuð heldur séu þau alltaf að sækjast eftir næringu ef þau eru að sjúga brjóstið. Ég er með einn 9 vikna og brjóstagjöfin hefur gengið mjög vel, hann
þyngist eðlilega og er oftast vær og góður. Hann tekur líka snuð og er mjög duglegur með það. Ég var samt að hugsa, mér finnst ég alltaf þurfa að slíta hann af brjóstinu við enda brjóstagjafar og er óörugg með hvenær hann er raunverulega búinn að fá nóg. Þetta lýsir sér þannig að hann sýgur kröftuglega í upphafi og í kannski 10-15 mín. Eftir það fer hann að taka pásur í soginu (sem ég veit að er eðlilegt) en sogið verður líka mjög kraftlítið, varla að ég finni fyrir því og hann er með lokuð augun á meðan. Ef ég reyni að taka hann af herðir hann aftur á móti sogið í nokkrar sekúndur eins og til að segja mér að hann vilji vera lengur en fer svo strax aftur í pásur og mjög veikt sog. Yfirleitt slít ég hann bara af brjóstinu fljótlega eftir að hann byrjar á þessu og því mótmælir hann ekkert, er bara voða rólegur. Er hann að fá einhverja mjólk þegar hann sýgur svona laust? Er hann ekki bara að nota brjóstið sem snuð? Á ég að leyfa honum að vera bara áfram í svona dútli á brjóstinu?


Sæl og blessuð.

Það er rétt hjá þér að börn nota brjóst aldrei sem snuð. Ef náttúran ætlaði börnum að sjúga snuð þá mundu þau náttúrlega fæðast með þau. Það er alltaf góð regla að leyfa börnum að ljúka gjöfinni sjálf með því að sleppa vörtunni. Þau eru hins vegar alltaf mis værukær við brjóst. Sum ljúka þessu af eins og hverju öðru verkefni á stuttum tíma á meðan önnur vilja dúlla sér. Ef barn er alltaf mjög lengi í hverri gjöf (60 mín. eða meira) bendir það til þess að þau séu í vandræðum með að ná mjólkinni. Þá þarf yfirleitt að laga gripið hjá þeim. Ef að mamma vill hins vegar herða á barni við gjöfina er betra ráð að kreista brjóstið til að hjálpa því svolítið. Þá er best að byrja efst (yst) og nota alla greipina til að kreista brjóstið fram á við í áttina að vörtunni.
Vona að þetta hjálpi.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
5. júní 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.