Spurt og svarað

17. maí 2009

Brjóstaaðgerð fyrir 3 mánuðum.

Sælar og takk kærlega fyrir frábæran vef!

Ég er 35 ára og á tvö yndisleg börn. Í janúar fór ég í brjóstaminnkun, sem hefur verið draumur minn síðan ég var unglingur, því ég var hætt barneignum. Nú hins vegar er ég ólétt (mjög óvænt en mjög velkomið samt sem áður). Eins og mér líður í brjóstunum þá er ég frekar aum í örunum og ekki viss um hvort ég treysti mér hreinlega til þess að hafa barn á brjósti. Verð nú samt að taka það fram að ég er aðeins gengin um 7 vikur þannig kannski á þetta nú eftir að jafna sig. Ég á ágætis reynslu af brjóstagjöf með mín fyrri tvö og fannst það alveg yndislegt þó svo að oft á tíðum reyndi það á mann eins og gengur og gerist. Ég spyr:

1. Get ég haft barn á brjósti eftir svona aðgerð ?

2. Ef ég get verið með barn á brjósti en teysti mér ekki, hversu góð er þurrmjólkurblandan í samanburði við brjóstamjólkina?

3. Er ég að bregðast barninu með því að reyna ekki brjóstagjöf?

Kveðja Anna.

 


Sæl og blessuð Anna!

Til hamingju með þungunina. Ég skil vel að þú hafir ekki skipulagt þetta svo stuttu eftir aðgerð. Yfirleitt er talað um að brjóstin þurfi 1-3 ár til að jafna sig svo að þau verði tilbúin til brjóstagjafar eftir minnkunaraðgerð. Á móti kemur að í þungun verða ýmsar „lagfæringar“ í brjóstunum sem hjálpa til við brjóstagjöf. Svarið við fyrstu spurningunni er því: Já, en það er þó með fyrirvara. Svarið við annarri spurningunni er að þurrmjólk er það besta sem við höfum í dag til að nota ef brjóstamjólkin stendur ekki til boða. Og við spurningu 3 er svarið: Nei, þú tekur ákvörðun um hvað þú telur best fyrir þig og barnið miðað við aðstæður sem þú ert í hverju sinni.

Gangi þér sem best.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
17. maí 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.