Spurt og svarað

05. janúar 2006

Brjóstabarn sem bítur

Góðan dag!

Mig langaði að leita ráða hjá ykkur varðandi brjóstabarn sem bítur. Sonur minn tæplega 5 mánaða er kominn með tvær tennur og fleiri eru væntanlega á leiðinni von bráðar. Hann er því miður farinn að taka upp á þeim ósið að bíta mig á meðan hann er á brjósti, stundum rétt smá nart sem er svo sem allt í lagi, en inn á milli bítur hann virkilega fast sem er mjög sárt. Hingað til hef ég alltaf tekið hann af brjóstinu í smá stund þegar hann bítur, en þetta virðist bara frekar vera að ágerast ef eitthvað er. Það virðist líka vera stutt í að honum takist að bíta mig til blóðs, þó svo að hingað til hafi þetta bara verið óþægilegar rispur. Við gengum í gegnum hræðilega fyrstu tvo mánuðina af brjóstagjöf með sárum, sýkingum og öðrum erfiðleikum og ég hreinlega treysti mér ekki í annan svoleiðis pakka þó svo mig langi gjarnan til að halda áfram með hann á brjósti í a.m.k. nokkra mánuði í viðbót.

Er einhver leið til að venja hann af þessu?

Kveðja, Nína.

..................................................................................................

Sæl og blessuð!

Það er nokkuð algengt að börn fari að bíta á þessum tíma. Þau klæjar í gómana og svo þurfa þau náttúrlega að prófa þessar nýju græjur. Það hefur yfirleitt þótt affarasælast að láta þeim bregða svolítið þegar þau gera þetta eða láta þau á einhvern hátt finna að þetta er óæskileg hegðun. Það er misjafnt milli barna hve sterk viðbrögð þau þurfa. Sumum dugar að vera tekin af brjósti í smá stund á meðan önnur þurfa líka viðvörunarhljóð og að kippst sé til (sem verður oft ósjálfrátt).Margar konur láta gjöfinni lokið ef bitið er. Þú verður bara að prófa þig áfram. Það skiptir samt máli að barnið finni í hvert skipti að þetta sé ekki sniðugt án þess að það verði hrætt. Sár á vörtum eftir tennt börn eru oft annars konar en sár á fyrstu vikunum. Þau eru gjarnan á vörtubaugunum en ekki vörtunum sjálfum og ef þau eru djúp er meiri hætta á sýkingum í þeim. Það er þó lítið mál ef fljótt er brugðist við með sýkladrepandi kremi og þau eru yfirleitt fljót að gróa.  Hafðu endilega í huga að þetta er skeið sem barnið gengur í gegnum og það eru afar fáar konur sem hætta með barn á brjósti á þessu skeiði.

Með von um að þetta gangi fljótt yfir,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
5. janúar 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.