Brjóstabarn sem kúkar á 2ja vikna fresti

30.11.2005

Sæl!

Ég á eina þriggja mánaða, hún er á brjósti það gengur vel og hún þyngist vel. Ég hef áhyggjur því hún kúkar svo sjaldan, jafnvel á 2ja vikna fresti og þá verður hún svo kvalin og kúkar bara smá í einu allan daginn. Kúkurinn er mjög þykkur og það virðist vera erfitt fyrir hana að koma honum frá sér. Þegar hún er að kúka herpist hún öll saman og grætur. Er eitthvað til ráða?

...................................................

Sæl og blessuð!

Nei, það er sennilega ekki mikið sem ég get hjálpað þér með. Það er algjörlega eðlilegt fyrir 3ja mánaða barn að hafa hægðir á 2ja vikna fresti. Yfirleitt fá þau ekki neitt sem kallast mætti harðlífi þótt hægðirnar séu kannski svolítið þéttar í sér. Ef um harðlífi er að ræða er mikilvægt að allt sé tekið af henni sem hún fær aukalega. Það getur verið talsvert mikið um að vera hjá þeim þessi fáu skipti sem þau hafa hægðir og þau geta þurft að hafa svolítið fyrir þeim, en þetta á ekki að vera þeim eitthvert kvalræði.

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
30. nóvember 2005.