Spurt og svarað

11. nóvember 2005

Brjóstabörn og hægðatregða

Sælar og þakka fyrir frábæran vef!

Ég á rúmlega 4 mánaða son sem er ljúfur og vær, nema einstaka sinnum núna, kannski í 2 vikur eða svo. Málið er að frá fæðingu hefur hann alltaf haft hægðir á hverjum degi og jafnvel oft á dag og fyrir u.þ.b. mánuði fór það að verða 1 sinni á dag og þá frekar mikið. Þessar síðustu viku eða tvær hefur hann ekki haft hægðir jafn reglulega, oft líða 2-4 dagar á milli, sem er í lagi, nema hvað þá daga sem engar hægðir koma virðist honum líða frekar illa og hann rembist og prumpar voðalega mikið en engar hægðir koma með. Ég veit ekki hvort það tengist þessu en hann ælir voðalega mikið upp úr sér glæru sem er samt ælulykt af (veit ekki hvort það er slím eða eitthvað annað).  Hann er oft líka óvær rétt fyrir svefn, eins og hann vilji ekki fara að sofa. Mín spurning er sú hvort þetta sé eðlilegt eða þarf eitthvað að athuga þetta meira? Ég hef áhyggjur af því hvort að ég sé ekki að borða nægar trefjar eða eitthvað slíkt þar sem hann er eingöngu á brjósti (hef reyndar verið að prófa SMA en það fer ekki vel í hann).

Með fyrirfram þökk, Gully.

................................................................................................

Sæl og blessuð Gully.

Grunnreglan er sú að ef barn er eingöngu á brjósti þá þurfi ekki að hafa áhyggjur af hægðum þeirra. Þær geta breyst í þéttleika, lit, lykt, tíðni og magni án þess að maður lyfti svo mikið sem augabrún. Þú virðist vera með heilbrigðan ungan mann. Það getur verið jafn eðlilegt hjá honum að taka 20 daga pásu frá hægðum eins og að hafa hægðir 6 sinnum einn góðan veðurdag. Brjóstabörn nýta móðurmjólkina oft mjög vel og það er lítið sem þarf að skila. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að eitthvað sé fast innan í honum. Allri meltingu fylgir loftmyndun svo alveg eins og það gerist hjá fullorðnum þá gerist það hjá börnum og ekkert óeðlilegt við að hann losi mikið loft. Hann rembist síðan til að losa loftið en það þurfa ekki endilega að koma hægðir með. Með rembingi kemur alltaf hætta á ælum og það að ælur séu glærar er ekkert óeðlilegt heldur. Þau eru oft farin að slefa mikið á þessum tíma. Það lendir að hluta til ofan í þeim og getur síðan skilað sér sem ælur. Gubbulyktin kemur ef það hefur náð að vera ofan í maga einhverja stund.

Nei þú þarft ekki að hafa áhyggjur af fæði þínu. Borðaðu endilega mikið af því sem þér verður gott af og þér finnst gott. Trefjar sem þú borðar myndu ekki skila sér yfir til hans en SMA hins vegar veldur miklu álagi á meltingu hans og hann getur verið marga daga að jafna sig á því. Það sem skiptir þig mestu máli er að hætta SMA gjöf og hætta að hafa áhyggjur.

Með bestu ósk um ánægjulega brjóstagjöf,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. nóvember 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.