Spurt og svarað

24. júlí 2012

Brjóstagjafaráðgjafar

Sælar!

Ég á að baki misheppnaða brjóstagjöf 2006 þar sem ég fékk aldrei almennilega aðstoð varðandi gjöfina og hjúkrunarfræðingurinn í ungbarnaeftirlitinu gat ekkert aðstoðað. Ég lá inni í 4 daga og fékk því enga ljósmóður heim fyrstu dagana. Barnið fékk ábót frá fyrsta degi og var alfarið hætt á brjósti 8 vikna. Ég átti mitt annað barn í mars 2010. Aftur lá ég inni í 4 daga og í bæði skiptin finnst mér ég ekki hafa fengið almennilega aðstoð við að koma brjóstagjöf af stað á sængurkvennadeildinni. Aftur kom engin ljósmóðir heim heldur hjúkrunarfræðingur úr ungbarnaeftirlitinu (samt ekki sama og í fyrra skiptið). Aftur gat sú kona ekkert aðstoðað varðandi brjóstagjöfina. Henni fannst barnið ekki þyngjast nóg og ráðlagði bara pela. Mig langaði að láta þetta ganga núna svo ég hafði samband upp á spítala og talaði við brjóstagjafaráðgjafana þar (sem mig minnir að hafi verið Katrín og Anna?) þegar barnið var 12 daga gamalt, ég komin með sár og sýkingar og var að gefast upp vegna sársauka við gjafirnar. Í stuttu máli þá björguðu þær málunum:) og barnið fékk aldrei ábót/pela og var á brjósti í 8 mánuði án vandræða:) Nú á ég von á 3ja barninu og hef áhyggjur af því að fá ekki aðstoð (ef þarf) því að brjóstagjafaráðgjafarnir eru ekki lengur á spítalanum og ég hef enga trú á hjúkrunarfræðingunum á minni heilsugæslu til að geta hjálpað miðað við fyrri reynslu! Hvar er hægt að hafa samband við brjóstagjafaráðgjafa í dag? og þá helst þær sem ég hitti síðast:)

Kv. am
Sæl!

Einhversstaðar hefur orðið misskilningur varðandi brjóstagjafaráðgjafa á Landspítalanum því Katrín og Anna starfa báðar á spítalanum og aðstoða þar konur og ráðleggja við brjóstagjöf meðan á sængurlegu stendur. Ekki er lengur boðið uppá göngudeildarþjónustu nema í sérstökum tilfellum t.d. ef um sýkingu er að ræða. Á  meðgöngu- og sængurkvennadeild og í Hreiðrinu starfa líka reyndar ljósmæður sem einnig aðstoða við brjóstagjöf í sængurlegu. Svo eru starfandi brjóstagjafaráðgjafar á flestum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu, ef það er ekki brjóstagjafaráðgjafi á hverfisstöðinni er hægt að leita til næstu heilsugæslustöðvar.

Þar sem þú átt eina vel heppnaða brjóstagjöf að baki eru allar líkur á að vel gangi næst þar sem þú hefur þegar lært og tileinkað þér góð handtök. Einnig ertu að fá nýjan einstakling með sinn persónuleika í hendurnar og um að gera að fara jákvæð af stað í brjóstagjöfina.

Gangi þér vel.

Með bestu kveðjum,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24. júlí 2012
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.