Spurt og svarað

18. september 2006

Brjóstagjafaráðgjöf

Mig langar að forvitnast aðeins um brjóstagjafaráðgjöf. Er hún byggð á vísindalegum rannsóknum eða byggist hún fyrst og fremst á reynslu og tilfinningu hvers og eins? Mér finnst ég nefnilega fá mjög misvísandi leiðbeiningar frá fagfólki og var því að velta fyrir mér hvort það geti stafað af því að það sé ekki nógu duglegt að fylgjast með nýjustu rannsóknum eða hvort það sé af því að það hefur einfaldlega mismunandi reynslu.

Kveðja, ein sem er þreytt á misvísandi ráðleggingum.


Sæl og blessuð.

Það getur verið mjög þreytandi að fá misvísandi ráðleggingar, en sumt af því hefur reyndar sínar eðlilegu skýringar. Brjóstagjafaráðgjöf er byggð á vísindum fyrst og fremst. Það hefur mikið af rannsóknum farið fram á brjóstum, brjóstagjöf, börnum, næringu o.s.frv. sem eru forsenda brjóstagjafaráðgjafar. Þeir sem hafa brjóstagjafaráðgjafapróf hafa allir tekið samskonar próf sem byggt er á sama grunni sem byggir á nýjustu og bestu þekkingu i fræðunum. Það má kannski segja að eigin reynsla liti alltaf skoðanir fólks á flestöllum sviðum en það er lögð áhersla á að hafa það í lágmarki. Þegar ég segi að sumt hafi eðlilegar skýringar þá á ég við að oft fá mæður mismunandi ráð eftir því hversu gamalt barnið er. Það eiga auðvitað ekki sömu ráð við í fyrstu viku eða þeirri tíundu. Svo er það líka markmið brjóstagjafaráðgjafa að gefa einstaklingshæfða meðferð sem þýðir að reynt er að láta ráðleggingar hæfa móður og barni. Það getur svo verið að þau ráð hæfi ekki annarri móður og öðru barni. Ég á ekki auðvelt með að segja til um aðrar heilbrigðisstéttir en mér segir svo hugur að þar geti verið pottur brotinn varðandi að fylgjast með nýjungum. Fólk er mjög misduglegt í því.

Vona að þetta svari spurningum þínum,

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. september 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.