Brjóstagjafaspurningar

01.05.2006

Sæl og takk kærlega fyrir frábæran vef.

Mig langar til að spyrja nokkrar spurningar um brjóstagjöf. Ég á eina þriggja vikna sem fæddist frekar lítil og þurfti aukagjöf meðan ég var upp á spítala. Þegar við fengum að fara heim 5 dögum síðar var hún farin að taka brjóstið mjög vel og hefur aldrei verið vandamál. Fyrstu vikuna var ég eins og búkolla, skipti þrisvar sinnum um bol á dag því það lak alltaf í gegn, var með 2 innlegg sitt hvoru megin en samt lak í gegn. Núna hefur það minnkað til muna og mér finnst hún klára úr brjóstinu við hverja gjöf og stundum held ég að það sé ekki nóg fyrir hana. Er það eðlilegt? Hún lætur alla vega stundum illa á brjóstinu og gargar á mig, bítur í geirvörtuna og rykkir henni út úr sér. Er hún þá ekki að fá nóg? Í hvert sinn sem hún fer á brjóstið fæ ég sáran sting og óþægindi fyrstu 2-3 sogin sem hún tekur. Samt er hún að taka rétt. Er þetta eitthvað sem ég á bara að venjast? Eða á maður ekki að finna fyrir neinu meðan brjóstagjöf stendur? Á kvöldin er ég eiginlega tóm og hún alveg snarvitlaus - ekkert hægt að gera fyrir hana nema labba um gólf og dilla henni. Á ég þá að fara gefa henni þurrmjólk eða láta hana totta tóm brjóstin? Ég er endalaust þyrst og því mjög dugleg að drekka vatn og safa.

Eitt í viðbót. Nokkrum sinnum yfir daginn fæ ég frekar óþægilegan sting eða eins og kulda í geirvörturnar þær rísa báðar og lekur mjög mikið úr þeim. Af hverju gerist það? Á ég að stoppa það og þá hvernig stoppa ég lekann? Ein ljósan sagði mér að ýta á geirvörturnar eins og dyrabjöllu til að stoppa flæðið en það virkar ekki

Með von um skjót svör og aftur takk fyrir frábæran vef.Sælar!

Ef við byrjum á því þegar hún er að byrja að taka vörtuna þá geta komið eins stingir eða óþægindi fyrstu sogin sem hverfur svo - þetta hættir svo með tímanum, u.þ.b. frá annarri til fimmtu, sjöttu viku. Einnig þetta með lekann úr brjóstunum - hann er mestur fyrstu 2 vikurnar oftast og minnkar og hættir svo að mestu. Það koma tímabil í brjóstagjöfinni sem mæður upplifa að börnin klári úr brjóstinu og það sé ekki nóg mjólk. Það gerist oftast þegar börnin eru í vaxtarkipp. Talað er um að börnin fari í vaxtarkipp á um 2 til 3ja vikna og
síðan á 6 vikna fresti - þá upplifa mæður að það sé ekki nóg mjólk. Börnin vilja þá fara oftar á brjóst og stundum er eins og brjóstin séu næstum tóm - þetta lagast oftast eftir nokkra daga (sumir tala um 2 daga). Það sem gerist með vörturnar þegar lekur úr þeim sjálfkarfa - heitir tæmingarviðbragðið - sem getur komi bara við það að móðirin hugsar um banið - það hefur reyst vel að þrýsta þétt á vörturnar í smá tíma - þá hættir rennslið.

Með kveðju,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. maí 2006.