Spurt og svarað

18. mars 2005

Brjóstagjafavandræði

Mig langar aðeins til þess að leita ráða hjá ykkur. Þannig er mál með vexti að ég eignaðist dreng í desember sl. Fæðingin gekk mjög vel og hann tók brjóstið strax. Þegar hann er 3 vikna tek ég eftir fyrirferð á hálsinum á honum. Ég fer með hann strax til læknis og hann er skoðaður fram og til baka og kemur í ljós að hann er með bandvefsæxli á hálsinum. Á þessum tíma fer hann að neita brjóstinu og virðist eiga mjög erfitt með að snúa upp á hálsinn þegar hann á að drekka. Þannig að ég hef ýmist verið að mjólka mig og gefið honum mjólkina með pela sem að hefur gengið betur en samt er alltaf hálfgert vesen á honum þegar hann er að drekka. Ég þarf alltaf að plata hann til að koma einhverja ofan í hann. T.d. fyrst svæfa hann létt og svo gefa honum o.s.frv. Einnig hef ég verið að gefa honum þurrmjólk með þegar hann neitar brjóstinu alveg. Núna er æxlið horfið en hálsvöðvinn er enn mjög stífur. Við erum í sjúkraþjálfun og hefur það gengið vel. Spurning mín er þessi: Er hann kominn með svona krónísk vandamál þegar hann er að drekka eða ætli honum finni einhversstaðar til meðan hann drekkur? Þetta er virkilega farið að taka á að þurfa að hafa svona mikið fyrir hverri gjöf þar sem að ég er nú með tvö önnur börn yngri en 5 ára. Ég er mikil brjóstagjafakona og alls ekki tilbúin að hætta brjóstagjöfinni, heldur vil ég ef að möguleiki er á að reyna að koma honum yfir þessi vandræði.

Kær kveðja.

................................................................................

Það er oft erfitt að segja til um hvað kemur svona erfiðleikum af stað. Hugsanlega hefur barnið fundið til við hreyfingu á hálsinum og þess vegna átt erfitt með brjóstagjöf. Þú segir að hann hafi átt erfitt með að snúa upp á hálsinn við að drekka. Börn eiga ekki að þurfa að snúa upp á hálsinn á sér til þess. Til þess er jú verið að vanda þessar brjóstagjafastöður. Þinn drengur hefur örugglega þar að auki þurft sérvalda góða brjóstagjafastöðu til að honum gengi betur við að drekka með þessi hálsvandamál. Mér þykir mjög miður að enginn skuli hafa orðið til þess að aðstoða þig við það.

Síðan ferðu að mjólka þig til að gefa úr pela, plata ofan í hann fæðu og gefa þurrmjólk. Ég veit ekki hvað veldur. Hætti hann að þrífast eða þyngjast? Missti hann allan áhuga á að nærast? Það er ekki óalgengt að börn bregðist við utanaðkomandi áreiti eins og mörgum skoðunum, aðgerð o.fl. með því að drekka minna eða breyta hegðun í gjöf. Það er samt ekki ástæða til að fara að þvinga ofan í þau mat. Yfirleitt kemur áhuginn á brjóstinu hægt og rólega aftur og þyngdartapið í tengslum við aðgerð er oftast ásættanlegt.

Þú spyrð hvort vandamálið sé orðið krónískt. Það er það ekki. Barnið vill vera á brjósti, þér er alveg óhætt að treysta því. Jafnvel þótt hann finni til við gjöfina þá líður honum betur í eðlilegri brjóstagjöf en við pelagjöf og þvinganir. Það mikilvægasta fyrir þig er að finna réttu brjóstagjafstellinguna. Mér finnst líklegt að allar þessar venjulegu séu vonlausar. Nema liggjandi staða með miklum stuðningi. Svo hefði ég mælt með að þú reyndir hestbaksstellingu þar sem þú situr með barnið sitjandi á lærinu á þér, snúandi að þér með fætur út til sitt hvorrar hliðar og taki brjóstið beint án þess að þurfa að hreyfa höfuðið. Ef þessi stelling gengur ekki prófaðu þá einhverja aðra. Notaðu hugarflugið. Þú þekkir barnið. Reyndu að miða við að það þurfi að hreyfa sig sem minnst. Þú kemur með brjóstið til hans en ert ekki að færa hann að brjóstinu. Þér tekst þetta. Ég er alveg viss um það. Það getur tekið nokkra daga eða 1-2 vikur en það tekst. Mér finnst bara leiðinlegast að enginn hafi haft hugsun á að hjálpa þér fyrr.

Með bestu óskum um velgengni,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. mars 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.