Spurt og svarað

30. mars 2005

Brjóstagjafavandræði og misvísandi svör

Sælar!

Ég á tæplega þriggja vikna dóttur og í síðustu viku (þá 2ja vikna) kom í ljós að hún hafði ekki þyngst um svo mikið sem eitt gramm frá því í vikunni áður. Hjúkkan sem vigtar sagði mér því að gefa henni ábót þ.e. þurrmjólk. Ég þykist vita að aðrir fræðingar á þessu sviði hefðu ráðlagt annað, þ.e. að setja barnið oftar á brjóst (a.m.k. hafði ljósmóðirin sem kom heim sagt við mig að ef mér yrði ráðlagt að gefa ábót þá ætti ég ekki að hlusta á það).

Vandamálið er hins vegar, að ég var og er stanslaust með blessað barnið á brjósti. Þegar hún er ekki sofandi, og hún sefur lítið að mér finnst (ekki meir en 9-12 klst á sólarhring) þá er hún á brjósti - nú eða þá að hún grætur eða er ergileg! Ég hef lesið helling um hvað sé til ráða og passa alltaf að hafa hana nógu lengi hvoru megin til að hún fái „feitu mjólkina“, ég drekk fullt af vatni, borða sæmilega fjölbreytta fæðu, tek lýsi og eina fjölvítamín á dag, er núna byrjuð að fara í stutta göngutúra ein, er ekki með heimsóknir, fæ mér heitt að drekka fyrir gjöf og legg oft heitan bakstur við brjóstið, ég nudda brjóstin stundum létt, t.d. þegar ég er í sturtu, er núna byrjuð að drekka fennel te o.s.frv. M.ö.o. ég tel mig vera að gera allt sem á að gera - en aðalatriðið er auðvitað að setja barnið oft á brjóst og ég geri það líka eins og ég sagði þá er hún þar alltaf.

Í gær var hún sofandi og ég ákvað að pumpa mig og sjá hvað mikið kæmi. Voila, 20 ml! Mig minnir að þá hafi verið liðnir u.þ.b. 2 tímar frá því ég gaf henni síðast. Varðandi þurrmjólkina þá ákvað ég að bíða í 3 daga og vera ennþá duglegri í brjóstagjöfinni og sjá svo hversu þung hún yrði að þessum 3 dögum liðnum, en þá átti ég að koma með hana í vigtun. Ég hélt þetta ekki út því hún grætur svo mikið og nú vissi ég ástæðuna fyrir grátinum og fór því og keypti þurrmjólk og hún gleypti í sig 40-50 ml og ég hef aldrei séð barnið svona rólegt - hún sat bara spök og kíkti í kringum sig. Svo nú hef ég í 3 daga gefið henni svona ábót og hún er mun rólegri og fljótari að sofna og hún hafði í dag þyngst um u.þ.b. 150 grömm (á 4 dögum).

Svo nú er ég eitt spurningamerki varðandi það hvernig þið getið haldið því fram að það eigi ekki að gefa þurrmjólk og bara vera með barnið á brjósti. Ég get ekki verið með hana oftar en alltaf á brjósti!

Svo nú langar mig að spyrja:

  • Hvað ég sé að gera svona vitlaust?
  • Hvort það sé ekki pínu „óeðlilegt“ að hún sofi ekki meir en hún gerir?
    (þó ég viti að ekki séu öll börn eins).
  • Getur verið möguleiki á að mjólkin mín sé ekki nægilega næringarrík (feit?) - mér sýnist mjólkin í lok gjafar vera hvítari en sú sem kemur í byrjun gjafar þó ég þori ekki að hengja mig upp á það.

Ég vil taka fram að ég er ekkert sérstaklega stressuð yfir þessu, svo það ætti ekki að vera stress sem veldur (nema ómeðvitað sé!). Mig langar að vera með hana á brjósti en finnst það enginn heimsendir ef ég þarf að gefa henni svona þurrmjólk með, ég vil bara að hún sé södd og sæl og hún hefur sko ekki verið það af mjólkinni minni. Sjálf var ég lítið á brjósti og verð sjaldan eða aldrei veik, var farin að lesa 5 ára og á 5 ára háskólanám að baki!

Ég hélt ég væri „natural born“ til að vera mamma, en nú finnst mér ég bara hafa rekist á vegg - og ekki hjálpar að fagfólk virðist vera svona ósammála, t.d. segir hjúkkan sem vigtar að ég eigi ekki að hafa hana lengur á brjósti í einu en eina klst í einu en þú sem þetta lest ert líklega ekki sammála því. Ég er nú oftast með hana 3-4 tíma í einu! Og það hefur oft verið lengur, mikið lengur.

Með von um skjót svör,
20 ml-mamman ;-)

..............................................................

Sæl og blessuð.

Það er hörmung að heyra hve mikið hefur gengið á, á stuttum tíma. Börnum er venjulega gefið tækifæri í 2-3 vikur að ná upp í fæðingarþyngd. Þannig að engin þyngdaraukning í 1 viku þarf ekki að þýða að allt sé farið í hund og kött. Nú veit ég reyndar ekki hvernig barninu gekk að ná fæðingarþyngd en þegar greinilega gengur hægt að koma þyngdaraukningu af stað þarf að grípa til aðgerða. Aðgerðir felast í að meta hvernig gjafir ganga þ.e. gjafamynstrið, griptækni sogtækni o.fl. og breyta þeim þannig að ástandið hugsanlega lagist. Ef maður nennir hins vegar ekkert að reyna að gera eða kann það ekki segir maður konunni að gefa ábót. Þar með fær maður barnið til að þyngjast án þess að laga vandamálið.

Eins og þú lýsir vandamálinu þá gengur barninu verulega illa að ná mjólk. Þau gefast nefnilega ekki svo auðveldlega upp. Þau reyna og reyna endalaust. Það þýðir að gjafirnar verða ógnarlangar og árangurslausar eða litlar og barnið er jafnframt óánægt og sefur lítið. Ástæður þess að barninu gengur illa að ná mjólk geta verið fjölmargar. Algengast er að gripið á vörtunni sé rangt eða ekki nógu gott, sogið sé rangt eða of lint, barnið sé sogvillt, stundum eru gjafastellingar slæmar eða ónógur stuðningur við barn og/eða brjóst í gjöf. Oft eru einhverjir þessara þátta samtvinnaðir.

Þú ert greinilega búin að fá fullt af ráðum sérstaklega til þess ætluð að auka mjólk og eru góð sem slík en það er alveg sama hve mikla mjólk þú framleiðir, ef barnið kann ekki að ná henni úr brjóstinu þá breytir það engu.

Þú segist hafa pumpað 20 ml. úr brjóstinu. Það segir mér í sjálfu sér ekki mikið. Það má aldrei líta svo á að 1 mjaltir úr brjósti sé einhver mælikvarði á hve mikið brjóst framleiða. Þar koma til margir þættir: Hvenær sólarhringsins er mjólkað, hve lengi, með hvaða styrk, 1 eða 2 brjóst í einu, lagni þess sem mjólkar, andlegt ástand móður o.s.frv. Þú hefðir hugsanlega getað mjólkað þig aftur eftir 20 mín. og fengið aðra 20 ml. Hvað hefði það þýtt?

Mér finnst mjög skiljanlegt að þú hafir gefið barninu þínu þurrmjólk. Það er ekki hægt að horfa upp á barnið sitt svangt lengi. Það er bara eðli mæðra. Þú fannst þá einu leið sem þér var bent á og kannski þekktir til að seðja barnið. Það var greinilega enginn til staðar sem gat hjálpað þér að leiðrétta það sem úrskeiðis hafði farið með brjóstagjöfina.

Svo ég reyni að svara spurningunum þá er haldið fram að það eigi ekki að gefa þurrmjólk vegna þess að það er óþarfi ef allt gengur eðlilega og truflar brjóstagjöf oft á tíðum.
Nei þú getur ekki verið oftar en alltaf með hana á brjósti en það er ekki eðlileg brjóstagjöf ef barnið er alltaf á brjósti. Ég er búin að útskýra hvað þú gerir vitlaust, þú ert að einbeita þér að vitlausum þætti brjóstagjafarinnar.Hún vakir auðvitað meira ef hún er svöng.
Nei það er ekki mögulegt að mjólkin þín sé ekki nægilega næringarrík. Jú ég er í þessu tilfelli sammála um að 1 klst. sé hámark. 3-4 klst. þýðir bara að það er ekkert að gerast hjá barninu.

Mér þykir fyrir því að þú hafir lent á svo ósammála fagfólki en ef þú meinar að þú viljir hafa á brjósti þá þarftu að finna einhvern sem kann að hjálpa þér og þú treystir og kippa þessu í lag. Ég er ekki að segja að það gerist á 2 tímum. Til þess þarf nokkra daga sérstaklega þar sem þurrmjólkin er komin til sögunnar og það kostar vinnu en þú ert enn í það sem kallað er „upphafi brjóstagjafar“ því aðlögunartími brjóstagjafar eru 6 vikur og oft ekki allt komið í lag fyrr en þá.

Jæja, þú fékkst langt svar við langri spurningu og ég vona að eitthvað hafi skýrst.

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og  brjóstagjafaráðgjafi,
30. mars 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.