Spurt og svarað

18. maí 2006

Brjóstagjafavesen

Sælar fróðu konur.

Ég eignaðist dóttur mína fyrir að verða 5 vikum síðan (1.barn) og er að lenda í smá vandræðum með brjóstagjöfina. Vandamálið er á kvöldin, svo virðist sem ég hafi ekki næga mjólk handa henni á kvöldin, og gef ég henni þó örast á kvöldin. Hún kvartar aldrei á öðrum tímum sólarhringsins og á morgnana lekur og lekur úr brjóstunum þegar við vöknum. Ég sit stundum með hana á brjóstinu í 2-3 tíma á kvöldin og stundum lengur og samt fær hún ekki nóg. Ég gef henni þá þurrmjólk í pela svo hún (og ég) getum sofnað. Það líða ekki meira en 2-4 tímar yfir daginn á milli gjafa og lengst sefur hún í um 6 tíma á nóttunni í einu. Hvað get ég gert til að auka mjólkina á kvöldin? Er ég að gefa henni of ört á kvöldin? Hvað tekur langan tíma fyrir brjóstin að fyllast aftur eftir að þau tæmast alveg? Fyrirgefið hvað ég er óðamála í sambandi við þetta en ég er alveg að fríka út á þessu, finnst þetta allt vera misheppnað hjá mér og hreint bara ömurleg mamma, og veit ekki neitt hvað ég á að gera í þessu öllu saman.

Með von um skjót svör,misheppnuð mamma.


Sæl og blessuð vel heppnaða mamma.

Það er langur vegur frá því að þú sért misheppnuð. Það eru bara nokkur atriði sem þú þarft betri útskýringar á. Vandamálið sem þú talar um er sameiginlegt nær öllum konum með börn eingöngu á brjósti. Þær halda að þær hafi ekki næga mjólk á kvöldin af því þær skilja ekki eðli brjóstagjafar nógu vel. Staðreyndin er sú að brjóstin framleiða alltaf nægilega mikla mjólk handa barninu. Það er hins vegar aldrei neitt reglulegt, skipulagt eða raðað við brjóstagjafaferlið. Konum er sagt að börn drekki 8-12 sinnum á sólarhring. Það er ekki bara einstaklingsmunurinn heldur getur það líka átt við um sama barnið. Það getur drukkið 8 sinnum einn daginn og 14 sinnum þann næsta. Þessum gjöfum er aldrei raðað skipulega á sólarhringinn. Yfirleitt drekka börn sjaldnar fyrri hluta dags og gjafirnar eru tiltölulega lengri. Samsetning mjólkurinnar er þannig að stórt hlutfall er formjólk sem hefur lítið næringarinnihald. Þessar gjafir eru yfirleitt nokkuð stórar að magni og fylla vel í magann. Seinni hluta dags, á kvöldin eða snemma nætur kemur yfirleitt tímabil örra gjafa. Þá eru gjafirnar minni að magni en mjólkin er miklu næringarríkari. Börn eru sólgin í þessa mjólk og vilja drekka sem oftast. Ef að þau fá það eins og náttúran býður þeim þá kemur að því að þau verða yfirfull að feitri mjólk og þá í kjölfarið kemur yfirleitt lengsti blundur sólarhringsins. Það er slæmt þegar mæður miskilja þarfir barnsins og gefa þurrmjólk. Þá missa börnin af feitu mjólkinni og yfirleitt eru þá hafin endalokin á brjóstagjöfinni.
Þannig að svörin til þín eru: Hvað þú getur gert til að auka mjólkina á kvöldin er ósköp fátt. Með því að skilja ferlið veistu að þú þarft ekki að gera neitt sérstakt. Fara vel með þig o.s.frv.

Nei þú ert ekki að gefa henni of oft á kvöldin, þú ert að gefa henni of sjaldan. Ég ráðlegg konum oft svokallaða skiptigjöf á kvöldin. T.d. gefa fyrst brjóst í 15-20 mín. Skipta um brjóst og gefa í 10 mín. skipta aftur um brjóst í 10 mín. Halda svo áfram að skipta um brjóst á 5-10 mín fresti þangað til barnið hættir að drekka.
Brjóst fyllast ekki eða tæmast eins og við skiljum það venjulega. Þegar barn hefur sleppt brjóstinu fyllist í alla ganga og hólf í brjóstinu á nokkrum mínútum. Síðan fer brjóstið í bið tilbúið að fara að framleiða um leið og örvun verður. Ef stutt líður milli gjafa eru brjóstin tilbúnari og framleiðslan fljótari að setja allt á fullt. Það er kannski hálfum til einum tíma frá síðustu gjöf. Ef langt líður á milli gjafa fara konur að finna fyrir þani í brjóstinu. Þá hefur of langt um liðið frá næstu gjöf og það merkir að barnið fær næst nokkuð stóra gjöf en næringarlitla. Þannig að þú ert með mjög eðlilegt barn að því er virðist og um leið og þú hættir að gefa því þurrmjólk og ferð að gefa því eins og náttúran býður þá ertu í góðum málum.

Gangi þér vel,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. maí 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.