Brjóstagjöf

15.08.2005

Kæru ljósmæður
Ég er með spurningu varðandi brjóstagjöf, stelpan mín er tæplega 4
vikna og þyngist mjög vel.  Hún drekkur yfirleitt bara úr öðru brjóstinu og yfirleitt legg ég hana á sama brjóstið ef hún vill meira, þó það sé eftir ca klukkutíma (hún tekur oft 3 lotur í einni gjöf).  Spurningin mín er því sú, á ég að gefa henni úr sama brjóstinu aftur ef mér finnst hún ekki hafa tæmt það þegar það er klukkutími síðan hún drakk úr því síðast og jafnvel lengri tími (2 tímar).
Með þökk fyrir

..........................................
 

Sæl og blessuð.

Það er í góðu lagi að gefa bara eitt brjóst í hverri gjöf en það þýðir jú að í næstu gjöf þarf að gefa hitt brjóstið.  Ef gjöf er nýlokið þegar barn sýnir merki um að vilja sjúga meira (innan 15-20 mín.) er í lagi að leggja barnið aftur á sama brjóstið. Ef liðinn er lengri tími t.d. 30 mín. Eða meira er komið að nýrri gjöf og þá á barnið að fá hitt brjóstið. Það skiptir engu máli hvort þér finnst eitthvað vera í brjóstunum eða ekki. Það er hvort eð er falstilfinning sem þú átt ekki að taka mark á ef barnið er raunverulega búið að sjúga brjóstið vel.  Aðferðin sem þú ert að nota leiðir hægt og bítandi til minnkandi mjólkurframleiðslu sem þú myndir fyrst merkja á auknum hungurmerkjum barnsins. En ég held að þú sért í góðum málum og sleppir við öll vandamál ef þú breytir gjafamynstrinu.
       

Með bestu óskum og von um langa brjóstagjöf.
                     

Katrín brjóstagjafaráðgjafi, 15.08.2005.