Spurt og svarað

28. nóvember 2009

Brjóstagjöf

Er það rétt skilið að vörn sem brjóstamjólk veitir sé ekki til staðar nema barnið fái eingöngu brjóstamjólk? Getur aðeins ein ábót skemmt þessa vörn eða hvað er talað um að brjóstamjólk þurfi að vera stór hluti af fæðunni til að hún veiti vörn? Af svörum hér á vefnum má ætla að aðeins ein ábót á sólahring geti haft slæm áhrif hvað þetta varðar, er það rétt? Hefur slíkt verið rannsakað og ef svo er hvar hafa þær niðurstöður birst?

Með kveðju.

 


Sæl og blessuð!

Þetta er kannski ekki alveg einfalt mál. Brjóstamjólkin gefur að sjálfsögðu alltaf mjög góða vörn við hinum ýmsu sjúkdómum. Þó ekki sé annað en að hafa næringarefni sem gera börnin eins hraust og kostur er. En vörnin er langbest ef brjóstagjöfin er það eina sem barnið fær. Þá er aðallega átt við vörn gegn öndunarfærasjúkdómum og sýkingum í meltingarvegi. Þeir sem rannsakað hafa ónæmiskerfi ungbarna lýsa því stundum eins og að meltingarvegur barna sé „málaður“ að innan þannig að sýkingarvaldar komist ekki úr meltingarvegi í blóðrás. Ein gjöf af einhverju öðru en brjóstamjólk rýfur þetta „málingarlag“ og gerir barnið viðkvæmara fyrir að sýkjast. Það tekur svo tíma fyrir lagið að jafna sig aftur. Þetta hefur verið rannsakað og er stöðugt verið að rannsaka betur. Það er þó eftir mjög mikið að rannsaka varðandi brjóstamjólk t.d. hvaða hlutverki öll efnin í henni gegna í líkama barna.

Vona að þetta skýri eitthvað.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
28. nóvember 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.