Spurt og svarað

08. mars 2008

Brjóstagjöf - skipta um brjóst eða ekki?

Sælar og takk fyrir mjög góðan vef.

Ég átti litla skvísu fyrir þremur mánuðum síðan og hefur allt gengið mjög vel. Ég er þó með nokkrar spurningar sem ég væri þakklát fyrir að fá svör við. Brjóstagjöfin hefur gengið ágætlega og ég hef haft þann hátt á að gefa bara annað brjóstið í hverri gjöf. Stelpan hefur alltaf drukkið með stuttu millibili yfir daginn, u.þ.b. 1½ tíma fresti en stutt í einu, u.þ.b. 5-10 mín. Hún vaknar svo á 4-5 tíma fresti á nóttunni til að drekka. Þegar hún var um 7 vikna leitaði ég til brjóstagjafaráðgjafa af því að ég var ekki örugg með það sem ég var að gera. Hún ráðlagði mér að gefa sama brjóstið ef það liði styttri tími en 2 klst. milli gjafa til að barnið fengi feitu mjólkina. Þetta hef ég gert síðan og er alveg hörð á því að skipta ekki um brjóst nema á tveggja tíma fresti. Nú var ég hins vegar að lesa hér á vefnum að þetta myndi leiða til þess að mjólkin minnkaði smátt og smátt. Að það eigi að gefa sama brjóst ef barnið biður aftur um gjöf eftir 10 - 15 mín. en ef 30 mín. líða á milli gjafa eigi að skipta um brjóst. Stelpan mín hefur þyngst eins og hún „á“ að gera og er m.a.s. komin með ágætar bollukinnar :) og ég virðist eiga nóg til handa henni. Hvor aðferðin er rétt? Ég vil alls ekki að mjólkin minnki hjá mér því ég stefni á að hafa barnið einungis á brjósti fyrstu 6 mánuðina.

Svo er ég með aðra spurningu sem snýr að bleyjumálum. Stelpan vaknar u.þ.b. tvisvar á nóttu til að drekka en sofnar strax aftur eftir gjöf. Ég skipti því ekki um bleyju þó hún sé búin að pissa (hún kúkar aldrei þegar hún sefur) fyrr en undir morgun. Ég var að velta fyrir mér hvort það sé ekki allt í lagi að barnið sé með blauta bleyju í einhvern tíma eða á ég að skipta á henni um miðja nótt og eiga á hættu að hún vakni við það?

Með fyrirfram þökk, Lilja.Sæl og blessuð Lilja.

Það getur reyndar verið mjög einstaklingsbundið hvaða fyrirkomulag hentar hverri móður og hennar barni. Eins og ég hef sagt einhvern tíma áður finnst mér mæður næstum alltaf velja sér það kerfi sem hentar þeim best. Mjög líklega hentar þér og þínu barni þetta fyrirkomulag sem þú ert að nota allra best og engin ástæða fyrir þig að vera neitt að velta þér meira upp úr því. Ef þér finnst mjólkin eitthvað minnka getur þú lagt á bæði brjóst í nokkrar gjafir og þá eykst hún aftur. Þú hefur sennilega eitthvað misskilið eða misheyrt hjá þessum brjóstagjafaráðgjafa því „feit“ mjólk getur ekki verið í brjósti eftir 2 klst. bið. Feit mjólk kemur bara í lok gjafa og stopp eru þar ekki innifalin nema eins og ég segi 10-15 mín. í allra mesta lagi.

Varðandi bleyjuspurninguna þá finnst mér allt í lagi að sleppa því að skipta á pissubleyju x 1 á nóttu en ef ég skil þig rétt þá eru þetta kannski 2 gjafir í röð. Mér finnst það of mikið. En kannski meinarðu að fyrri bleyjan sé þurr og þá er það auðvitað í lagi.

Með brjóstagjafakveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. mars 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.