Brjóstagjöf á kvöldin

12.11.2006

Ég vil byrja á að þakka fyrir góðan vef, það er mjög gott að leita að upplýsingum hérna!! Ég á 3½ mánaða stelpu sem er eingöngu á brjósti og vill ég reyna að halda því svoleiðis áfram en það sem ég er orðin svolítið þreytt á er að á kvöldin er ég að gefa henni nánast stanslaust í tvo klukkutíma og á þeim tíma sofnar hún oft og ég vek hana svona fyrst til að drekka meira en svo held ég að hún sé sofnuð og legg hana en þá vaknar hún og vill meira og loksins þegar hún hefur fengið nóg þá sofnar hún og vaknar ekki þegar ég legg hana í rúmið sitt. Ég er því farin að velta fyrir mér hvort hún þurfi meiri fyllingu en brjóstamjólkin gefur. Á ég að fara að gefa henni graut?

Hún þyngist eðlilega og er alltaf vær og góð nema vill hanga á brjóstinu á kvöldin.


Sælar!

Þar sem að hún þyngist eðlilega  þá er hún að fá það sem hún þarf af brjóstamjólk. Það er spurning hvort hún sé kannski í vaxtarkipp því börn taka vaxtarkippi af og til, á u.þ.b. 6 vikna fresti. Þá vilja börnin sjúga oft í nokkra daga, en við það eykst mjólkin oft. Ég myndi bíða með að gefa henni graut vegna þess að meltingarfærin eru svo óþroskuð og hún þyngist eðlilega.

Gangi þér vel,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. nóvember 2006.