Spurt og svarað

24. nóvember 2007

Brjóstagjöf á meðgöngu

Sælar, ég er komin rúma mánuði á leið og er með barn á brjósti. Ég hef heyrt að það skuli forðast að vera að örva brjóstin þegar maður er óléttur til að forðast að fara af stað . Er þetta rétt? Ég var því að velta fyrir mér hvort að það að vera með barn á brjósti á meðgöngu geti haft einhver áhrif á að maður fari fyrr af stað en ætlað er? Þetta eru ekki margar gjafir sem
ég gef. Þetta er svona ein á dag og stundum ekki alla daga en kannski oftar þegar barnið er veikt.  Ég er ekki búin að taka ákvörðun um það hvenær ég ætla að hætta en ég finn fyrir miklum fordómum frá fólki sem kemur málið hreint ekkert við. Ég fæ sko að finna að þessari brjóstagjöf ætti að vera lokið áður en barnið fæðist. Ég ætla ekki að láta neinn ákveða þetta fyrir mig en langar til að spyrja ykkur hvort það sé eitthvað sérstakt sem maður ætti að hafa í huga ef ég kýs að halda áfram og vera þá með tvö börn á brjósti?

Með fyrirfram þökk og takk kærlega fyrir frábæran vef!!


Sæl og blessuð.

Það er flott hjá þér að vera ekki að láta þetta lið trufla þig. Að sjálfsögðu er þetta þitt mál og kemur engum við nema þér og börnunum.

Brjóstagjöfin hefur ekki áhrif á nýja meðgöngu nema í algjörum undantekningartilfellum. Það eru þá helst konur sem hafa sögu um mörg fósturlát og/eða fyrirburðarfæðingar. Þannig að þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af því. Það eru heldur ekki auknar líkur á fæðingu fyrir tímann samkvæmt rannsóknum.

Þú þarft að vita að það eru nokkuð mörg börn sem hætta brjóstagjöf á næstu meðgöngu móður sinnar af sjálfsdáðum. Það er ekki alveg vitað af hverju en margir nefna til bragðbreytingu á mjólkinni vegna hormónaáhrifa. Þannig að þú þarft ekki að láta það koma þér á óvart ef barnið verður afhuga brjóstinu.

Ef af verður að þú hefur bæði börnin á brjósti samtímis er ekkert sem þú þarft að hafa í huga annað en að yngra barnið hefur forgang að brjóstinu og það er auðvitað mikilvægast á broddtímabilinu -já, það framleiðist broddur fyrir nýja barnið eftir fæðinguna þótt eldra barnið sé enn á brjósti. Vonandi þarftu ekki að eyða mikilli orku í að þræta við efasemdarmenn.

Baráttukveðjur.                    

Katrín Edda Magnúsdóttir,
brjóstagjafaráðgjafi og ljósmóðir.
24.11.2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.