Spurt og svarað

08. febrúar 2009

Brjóstagjöf á meðgöngu

Sælar dömur og þakkir fyrir góðan vef!

Það er svar hér inni á nýjustu fyrirspurnum um mjólkun á meðgöngu og þar segir að mjólkin á meðgöngunni henti ekki sem fæða fyrir nýburann. Ef ég skil þetta rétt þá er verið að segja að ekki sé æskilegt að geyma mjólkina sem framleiðist á meðgöngu handa barninu sem gengið er með. En ekki að mjólkin sé kolómöguleg eins og skilja má á lestrinum. Ég geng með mitt annað barn og er komin rúmar 22 vikur á leið. Fyrir á ég 15 mánaða barn sem er enn á brjósti. Ég er að velta fyrir mér hvort þetta tvennt geti ekki samrýmst? Ég hef oft heyrt að börn hætti sjálf þegar mjólkin tekur breytingum vegna meðgöngunnar, og ætla ég að leyfa mínu barni að ráða þessu svolítið sjálft. WHO mælir jú með brjóstagjöf samhliða fjölbreyttu fæði til tveggja ára aldurs. En ef barnið mitt hættir ekki sjálft. Á ég þá eitthvað frekar á hættu að fara fyrr af stað vegna örvunar frá brjóstagjöfinni? Ég verð að viðurkenna að ég er orðin svolítið ringluð.

Kveðja og góðir straumar.


Sæl og blessuð!

Ég skil vel að þú hafir velt vöngum yfir þessu.

Kona sem er ófrísk og ekki með barn á brjósti er með afar lág gildi af hormónum sem stjórna mjólkurframleiðslu. Mjólkin sem framleiðist í brjóstunum er broddmjólk. Það er alveg sama hvað hún reynir að mjólka út, innihaldið breytist nánast ekkert heldur er hún alltaf broddur. Hún breytist aðeins með tilliti til meðgöngulengdar. Broddur er jú mjög góður en er aðeins ætlaður börnum á allra fyrstu dögunum. Eftir það þarf barnið öðruvísi samsetta mjólk. Þá er ekki æskilegt að gefa því mjólk sem var mjólkuð á t.d. 30 viku meðgöngu og flokkast sem fyrirburabroddur. Það er talsvert önnur efnasamsetning í þeirri mjólk.

Kona sem er ófrísk og er með eldra barn á brjósti hefur annað gildi af hormónum. Líkaminn passar að mjólkurframleiðslan haldi áfram á eðlilegan hátt fyrir barnið. Síðustu dagana fyrir og eftir fæðingu snarbreytist hormónasamsetningin og broddur framleiðist fyrir nýja barnið. Sumum eldri börnum líkar það ekki og hætta en öðrum er alveg sama og halda áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Þú ert því í góðum málum að ætla að leyfa eldra barninu að ráða þessu sjálft. Þú ert ekki í hættu að fara fyrr af stað. Ef saga er um miklar fyrirburafæðingar er stundum mælt með að fara varlega í sakirnar en það er ekki sú tilfinning sem ég fæ af þínu bréfi.

Gangi ykkur sem allra best,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. febrúar 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.