Spurt og svarað

27. febrúar 2005

Brjóstagjöf á öðru brjóstinu

Ég lenti í talsverðum brjóstavandamálum með son minn.  Fékk stálma og sár á vörtur, var með alltof mikla mjólk fer síðan að fá stíflur - 3 eða 4 og enda á að fá brjóstabólgu og svo brjóstakýli. Þrátt fyrir mikla og kröftuga sýklalyfjameðferð frá byrjun beit ekkert á sýkinguna svo læknirinn minn var farin að halda að þetta væri krabbamein, svo reyndist þó ekki vera (sem betur fer). Skorið var á kýlið og losað. Sárið var rúman mánuð að gróa og sýktist endurtekið meðan að það var að loka sér.  Mjólkin í því brjósti fór niður í ekki neitt og þó ég léti hann alltaf örva það þá kom mjólkin ekki aftur svo ég mjólkaði hann á öðru brjóstinu í 12 mánuði (til 13 mánaða aldurs).

Nú er ég sem sagt ófrísk aftur og ég get hreinlega ekki hugsað mér að ganga í gegnum þetta aftur.  Sálartetrið var ekki upp á marga fiska eftir þetta allt saman og jaðraði við fæðingarþunglyndi. Í brjóstinu er ég alltaf með kipringsverk og vartan er svolítið dregin upp í örið.  Er hætta á að ég fái sár á þá vörtu aftur þar sem hún er ekki eðlileg? Á ég ekki alla möguleika á því að mjólka þetta barn á öðru brjóstinu eins og ég gerði við hinn ef ekki næst upp mjólk í veika brjóstinu.  Gera tvíburamæður það ekki. Ef allt fer nú í vaskinn aftur (sem ég vona svo mikið að það geri ekki) get ég þá einhversstaðar leitað eftir stuðningi við að hætta brjóstagjöf. Ég hef heyrt margar tröllasögur um það hvað sagt hefur verið við konur ef þær gefast upp á brjóstagjöf. Það var mér og eldra barni mínu ekki til góða hvernig ég var orðin andlega eftir þetta og ég held einhvern vegin að eðlileg ég sé meira virði þessu barni en brjóstagjöf ef til kemur. Með kveðju - ein að nálgast fæðingu

........................................................................

Sæl og blessuð áhyggjufulla.

Það er ekki skrýtið þótt þú sért svolítið kvíðin fyrir næstu brjóstagjöf. Það væru allir í þínum sporum. Það sem þú lentir í síðast hafa verið hálfgerðar hörmungar af lýsingum að dæma.
En það sem þú lentir í er versta tegund brjóstasýkingar og hún er sjaldgæf. Það er ennþá sjaldgæfara að sama konan lendi í því tvisvar. Þannig að þú hefur alla möguleika á að láta þetta ganga eðlilega fyrir sig núna.
En það er ýmislegt sem ber að varast. Það sem þú lentir í síðast kom af ákveðnum orsökum og þær aðstæður þarftu að forðast. Þú þarft að fá góða aðstoð við að læra að leggja barnið rétt á brjóst strax frá fyrstu stundu. Þá færðu ekki sár. Þú átt ekki að láta barnið lengur frá þér fyrstu dagana en 1 klst. í senn og passa vel að það fái aldrei ábót. Þá færðu ekki stálma. Svo þarftu leiðbeiningar um gott gjafamynstur. Þá færðu ekki of mikla mjólk. Það er líka mikilvægt að kunna rétta meðferð við stíflum í brjóstum sem þú getur gripið til ef örlar á einkennum. Þá færðu ekki brjóstabólgu. Og ef þú nærð að halda vörtunum heilum er hvort eð er ólíklegt að þú fáir brjóstabólgu.
Í þínu tilfelli þarftu að huga sérstaklega vel að því svæði brjóstsins sem skorið var í. Ég held ég skilji rétt að þú hafir haft barnið á því brjósti áfram eftir skurðinn og það er mjög gott því þá gerir líkaminn við gangakerfið eins og hægt er. Það er þó alltaf einhver örvefur sem að getur komið smá þroti í í byrjun en það jafnar sig með mjúku nuddi.
Nú ef þér finnst þetta allt hræðileg tilhugsun þá er minnsta mál að hafa barnið á öðru brjóstinu eins og þú veist manna best og ef það fer líka úr myndinni þá er auðvelt að fá góða hjálp við að hætta brjóstagjöf. Það sem þú hefur heyrt eru væntanlega eins og þú orðar það "tröllasögur"(ýkjur, ekki sannar). Allir sem hafa einlægan áhuga á að hjálpa við brjóstagjöf hjálpa við öll svið hennar sem inniber líka að hætta henni (að sjálfsögðu).

Með einlægum óskum um að vel gangi í þetta sinn,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
22. febrúar 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.