Spurt og svarað

12. október 2006

Brjóstagjöf á öðru brjóstinu eingöngu

Hæ, hæ!

Mig langaði að segja ykkur frá einu og í leið spyrja hvort það sé rétt hjá mér. Á sínum tíma sendi ég ykkur fyrirspurn og spurði hvort það væri í lagi að gefa bara eitt brjóst í gjöf. Já var svarið og ég hef alltaf gefið stelpunni minni eitt brjóst í gjöf. Stelpan mín er rúmlega sex mánaða núna og var eingöngu á brjósti fyrstu sex mánuðina. Hún hefur dafnað mjög vel af henni og var lengi vel fyrir ofan kúrfurna, sem sagt langt yfir meðaltali. Best að að taka það fram að hún var bara meðal barn þegar hún fæddist en telst vera stór núna. Það að hún dafni svona vel af brjóstamjólkinni, held ég að tengist því e-ð að hún hefur alltaf bara drukkið úr einu brjósti og þar af leiðandi alltaf fengið „rjómann“. Ég held að margar konur skipti of ört og því fá börnin ekki jafn mikinn rjóma. Mér finnst líka rökrétt að brjóstin geti forritað sig þannig að eitt brjóst get séð um eina gjöf. Því meira sem er sogið því meir eykst framleiðslan, ekki satt? Er eitthvað til í þessu hjá mér? Allavega hefur fólk verið steinhissa á hvað stelpan mín er vel í holdum og bara á brjósti. Segið mér nú hvort þetta sé bara vitleysa í mér eður ei :)Sæl og blessuð.

Það hefur greinilega gengið fullkomlega upp hjá þér að gefa annað brjóstið í gjöf. Það fyrirkomulag hentar hins vegar ekki öllum konum. Ég aðhyllist þá skoðun að þetta sé eitthvað sem hver kona finnur út sjálf með sínu barni. Þetta er þó eitt af þeim atriðum sem vefjast fyrir nokkuð mörgum konum og eins og alltaf þá stendur ekki á alls kyns ráðleggingum frá vinum og vandamönnum. Það finnst mörgum mæðrum mjög ruglandi. Ég hef reynt að finna út úr þessu fyrir hverja konu (ef ég er spurð) með því að horfa á gjafamynstrið og einstaklingana sem um er að ræða hverju sinni. Ég hef jafnvel gengið svo langt að ráðleggja varðandi þennan þátt í svörum við fyrirspurnum ef mér finnst ég hafa forsendur til þess. En ég er yfirleitt alltaf mjög sátt ef móðir telur sig vera búin að finna út hvor aðferðin henti henni og reyni ekki að breyta því nema mjög aðkallandi ástæður séu fyrir því.  Það getur vel verið rétt hjá þér að sumar mæður skipti of oft um brjóst en inn á milli eru konur sem hreinlega verða að gera það þó það sé kannski bara á tímabili. Jú, það er rétt hjá þér að brjóstin geta „forritað“ sig þannig að annað brjóst nægi. Hjá sumum konum kostar það þó ærna fyrirhöfn og hitt fyrirkomulagið hentar þeim konum oft betur. Vona að þetta hafi skýrt eitthvað.

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
12. október 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.