Brjóstagjöf áfram eftir 18 daga hlé

11.02.2010

Sæl!

Ég verð í burtu frá barni mínu 13 mánaða í vor en langar ekki að hætta með hana á brjósti. Gjafirnar hafa alltaf gengið vel. Hún borðar allan mat og fær 1-3 gjafir á dag eftir heilsufari hennar og tíma hjá mér. Gjöfin sem er alltaf föst inni er morgungjöfin. Seinni parts og kvöldgjöf eru breytilegar. Pabbinn leggur hana venjulega í rúmið á kvöldin og verður með hana meðan ég verð í burtu. Ég ætla að taka pumpu með ef ég þarf að létta á brjóstunum fyrstu dagana. En er ástæða fyrir mig að pumpa allan tímann til að halda mjólkinni við? Eða getur hún ekki alveg komið þessu í gang aftur ef áhuginn er til staðar þegar ég kem til baka? Mig langar ekki að pumpa alla ferðina. Þá líður mér bara illa yfir að vera í burtu. En ég vil heldur ekki að þessi ferð stjórni því hvenær barnið hættir á brjósti. Eru einhver góð ráð sem þið getið gefið mér?


 

Sæl og blessuð!

Það væri ráðlegt fyrir þig að pumpa 1 sinni á dag fyrstu dagana og svo kannski annan hvern dag það sem eftir er ferðarinnar. Það er svo alls óvíst hvort hún vill brjóstið þegar þú kemur aftur en hvort sem verður þá ertu tilbúin í það sem verða vill.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi
11. febrúar 2010.