Spurt og svarað

16. júlí 2005

Brjóstagjöf að kvöldi

Hæ, hæ! Mig vantar svo leiðbeiningar um hvað ég get gert til að auka brjóstamjólkurmagnið á kvöldin hjá mér. Málið er að ég er með einn aðeins 2 vikna pilt sem er ansi heimtufrekur. Hann drekkur vel og þyngist vel (síðast um 600gr á 5 dögum) og ég er bókstaflega stútfull af mjólk á daginn og nóttunni, þ.e.a.s það mikið þannig að hann nær ekki að klára brjóstið í gjöfinni, en svo á kvöldin verður hann allur ergilegur og hamast á brjóstinu, þegar ég svo prófa að mjólka fram eitthvað þá kemur sama og ekkert úr brjóstinu. Litli þurftafreki gæinn minn er sko ekki ánægður með það. Ég er að reyna að drekka heitt og hvað eina, en bara veit ekki alveg hvað best er að gera, eða hvort þetta komi til með að lagast.

Með von um góð svör svo allir geti unnt sér vel að kvöldi til.

...................................................................................

Sæl og blessuð.

Það getur verið að mjólkurframleiðslan hjá þér sé mun jafnari yfir sólarhringinn en þér kannski finnst. Þantilfinning í brjóstum bendir yfirleitt til að það sé orðið heldur of langt frá síðustu gjöf og brjóstin fá þá þau skilaboð að hægja á mjólkurframleiðslu. Þegar það fer að skila sér seinni part dags er kominn tími til að hvetja brjóstin til aukinnar framleiðslu aftur og þá þurfa börnin að drekka oftar og lengur tímabundið. Ef mamma svarar því ekki snarlega láta sum börn heyra í sér. Það er alltaf góð regla þegar börn eru í þessum fasa að skipta oft um brjóst. Kannski gefa 1 brjóst í 10-15 mín. og skipta svo bara á 5 mín fresti mörgum sinnum. Það er í rauninni ekki gott merki að reyna að mjólka fram því það kemur oft mjög lítið við þannig örvun og fólk misjafnlega flinkt við það.

Það getur verið ágætt að drekka eitthvað heitt rétt fyrir gjöf eða fá sér gos á meðan gefið er en passaðu þig bara á því að drekka ekki meira en þú hefur lyst á. Þ.e.a.s. ekki troða í þig vökva umfram þorsta. Það er líka annað atriði sem er mjög mikilvægt en kemur ekki vel fram hjá þér. Svona til öryggis þori ég ekki annað en að nefna það því það getur skipt miklu máli. Þú mátt ekki mjólka aukalega úr brjóstunum og allan leka úr brjóstum þarftu að reyna að stoppa. Þetta er gert til að brjóstin fái ekki fölsk skilaboð um eftirspurn.

Ég vona að ég hafi hitt á rétta svarið,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. júlí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.