Spurt og svarað

13. apríl 2004

Brjóstagjöf eftir brjóstastækkun

Mér langaði að forvitnast með brjóstagjöf eftir brjóstastækkun... Ég er ófrísk af mínu þriðja barni og er búin að fara í brjóstastækkun eftir að mín fyrstu 2 voru á brjósti... Þannig að mér langaði svona að forvitnast um það hvað þið hefðuð um það að segja .. Ég mjólkaði ekki nóg á fyrstu 2 börnum þurfti að gefa þeim ábót með brjóstagjöf en var samt með þau á brjósti þangað til að þau voru 6 mánaða og rúmlega það.. En ég hef heyrt að sumar konur sem fara í svona stækkun að ekkert hafi breyst ,mjólkin hafi aukist ef eitthvað er... En ein forvitin ;)

.....................................................................

Sæl og blessuð!

Brjóstastækkunaraðgerðir hafa blessunarlega lítil áhrif á brjóstagjöf eins og þær eru framkvæmdar hér á landi. Yfirleitt eru púðarnir settir inn um skurð í undirbrjóstsfellingu og það er ekkert hreyft við mjólkurgöngum eða geirvörtum. Það var því alveg rétt sem læknirinn þinn sagði þér að brjóstagjöf ætti ekki að verða erfiðari. Mjólkurframleiðslan hjá þér verður eingöngu háð örvun og hve mikið barnið drekkur í byrjun alveg eins og hjá öðrum konum.
Nú er það svo að sagt er að konur með „minni“ gerð af brjóstum geti framleitt alveg jafnmikla mjólk og aðrar en að þær hafi minna „lagerrými“. Það þýðir einfaldlega að þær þurfa að gefa mjólkina í fleiri skömmtum. Þetta vefst yfirleitt ekki fyrir vel upplýstum konum. Konur sem farið hafa í brjóstastækkun eru enn með sama litla „lagerrýmið“ þótt brjóstin líti út fyrir að vera stærri. Þær þurfa því yfirleitt að gefa brjóst oftar til að fullnægja þörfum barna sinna.
Dæmið um konuna sem mjólkaði ekki nóg fyrir fyrsta barn en miklu betur fyrir næsta held ég að sé gott dæmi um konu sem hefur lært tæknina við brjóstagjöf í millitíðinni. Brjóstastækkunaraðgerðin á milli barna hefur tæplega skipt þar máli.

Með óskum um gleðilega brjóstagjöf.                                             
Katrín Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi - 13. apríl 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.