Spurt og svarað

13. júlí 2006

Brjóstagjöf eftir eins árs aldur

Sælar og takk fyrir frábæra pistla hérna á síðunni :)

Svo er mál með vexti að ég er, að því er virðist, ein af mjög fáum konum í mínu umhverfi sem er með eldra barn á brjósti og oft erfitt að leita í reynslubanka um okkar brjóstagjöf.  Þ.a. ég var að velta fyrir mér hvort hægt væri að spyrja ykkur hérna um hvort þið vitið einhversstaðar um heimildir eða fróðleik um brjóstagjöf eldri barna.

Sonur minn er 19 mánaða og enn á brjósti að vild.  Ég veit ekki hversu margar gjafir hann er að fá, hef aldrei talið þær þar sem hann hefur alltaf þyngst eðlilega og - já - hef bara ekki séð ástæðu til þess meðan við erum bæði sátt. Ég er að reyna að gera upp við mig hvort ég eigi að fara að skipta mér eitthvað af gjöfunum og reyna að fækka þeim. Hef verið að reka mig dálítið á skilningsleysi fólks í kringum mig og er orðin svolítið efins um að ég sé að gera rétt. Mig langar mjög mikið að bíða og sjá hvort hann sjái ekki bara um þetta sjálfur á komandi mánuðum og árum, en svo stundum finnst mér hann svo mikill brjúllukall að ég á erfitt með að sjá fyrir mér að hann hætti fyrir fermingu.  Brjóstagjöfin er okkur báðum mikilvæg, en mér finnst erfitt að vita ekki hverju ég á von á - skilurðu hvað ég meina?  Er það satt sem sumt fólk segir að ég muni bara lenda í vandræðum með „brjóstasjúklinginn“ seinna meir eða er það satt sem aðrir segja að mynstrið snarbreytist milli 2 og 3 ára þegar venjuleg fæða fer að verða stærri og stærri hluti af næringarinntöku barnanna og þau fara að „aðskilja“ sig meira frá foreldrinu og verða sjálfstæðari?  Er í rauninni til eitthvað sem heitir afvenjun að frumkvæði barnsins?

Ein sem vantar upplýsingar, Lille Mor.


Sæl og blessuð „Lille mor“.

Ég get bent þér á fróðleik um Extended breastfeeding á síðu The La Leche League International. Þar eru ágætis upplýsingar um þetta og líka bent á frekara efni. Allir brjóstagjafaráðgjafar eru fylgjandi löngum brjóstagjöfum enda búið að sýna fram á ótvíræða kosti fyrir móður og barn. Frá náttúrunnar hendi er börnum ætlað að vera á brjósti í 3-4 ár og á þeim tíma venja þau sig af brjósti ef ekkert utanaðkomandi truflar þau. Ég hef alltaf litið svo á að lok brjóstagjafar sé einkamál hverrar móður og hennar barns og komi í raun engum öðrum við. Mér finnst hins vegar leiðinlegt að konur skuli þurfa að standa í stappi við vini og ættingja og þola illar athugasemdir og augnagotur vegna hegðunar sem er fullkomlega eðlileg og er að stuðla að heilbrigði vaxandi einstaklings.

Nei, það er ekki satt að þú lendir í vandræðum með „brjóstasjúklinginn“. Ef þú lendir í vandræðum þá er það ekki barninu að kenna. Nei, það er ekki rétt að mynstrið snarbreytist milli 2 og 3 ára. Það gerir það kannski stundum en oftast gerist það smám saman.

Já, það er til afvenjun að frumkvæði barnsins. En það er brugðist misvel við henni af móður.

Vona að þetta hjálpi.

Baráttukveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
13. júlí 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.