Spurt og svarað

16. október 2006

Brjóstagjöf eftir fleygskurð

Fyrir 5 árum síðan greindist ég með forstigseinkenni að brjóstakrabbameini og þurfti þess vegna að fara í 2 fleygskurði og í kjölfarið í geislameðferð. Núna er ég ólétt og finn mikinn mun á brjóstunum á mér og þegar ég var ólétt af mínu fyrsta barni.  Heilbrigða brjóstið stækkar og ég finn þrýstingstilfinninguna, en hitt breytist ekkert og hef ekki þessa sömu tilfinningu.  Ég veit að það voru teknir mjólkurkirtlar en á sínum tíma var sagt að þeir hefðu ekki allir verið fjarlægðir þótt læknarnir væru óvissir um virkni þeirra í framtíðinni.  Má ég eiga von á því að mjólka bara með öðru og þegar staðan er þannig að aðeins eitt virkar mun það þá duga barninu?  Hvaða vandamálum má ég eiga von á í óvirka brjóstinu og hvernig er brugðist við þeim?


Sæl og blessuð.

Það er í raun eðlilegt að þú finnir ekki fyrir einkennum á meðgöngu í brjóstinu sem var skorið í. Þar var tekið af vefnum og því rýmra um það sem eftir varð. Það þýðir þó ekki að þar sé ekkert að gerast. Trúlega á sér þar líka stað undirbúningur fyrir brjóstagjöfina en það fer bara mun minna fyrir honum þannig að þú finnur það ekki. Þú skalt ekki gera ráð fyrir að þar verði eins góð framleiðsla og áður, en það er nokkuð sem þú verður að láta reyna á. Ég ráðlegg þér eindregið að reyna að koma einhverri brjóstagjöf af stað á þessu brjósti þó ekki sé nema vegna þess að með því minnkarðu líkurnar á að lenda í þessum hörmungum aftur.

Ef svo fer að brjóstið verður alveg óvirkt þá er minnsta mál að mjólka bara af öðru brjóstinu. Það er fullkomlega nóg fyrir barnið. Þú þarft bara að passa að láta brjóstið vita af því. Þ.e.a.s. brjóstið verður að fá alla örvun barnsins alveg frá upphafi. Það gengur ekki að leggja stundum á brjóstið og gefa svo ábót á móti því þá setur brjóstið í lágan framleiðslugír. Ef þú lætur hins vegar barnið alltaf sjúga brjóstið þegar það getur þá setur brjóstið í háan framleiðslugír og fer létt með að framleiða nóg fyrir barnið.

Vandamál brjóstins sem skorið var í tengast helst örvef. Þú finnur mest fyrir því nokkrum dögum eftir fæðinu því þá myndast þroti inni í brjóstinu mest þar sem örvefur er mestur. Þetta getur valdið þrýsting kögglum og óþægindum en gengur svo tiltölulega fljótt yfir. Við þessum óþægindum er best brugðist með köldum bökstrum og svo léttu nuddi. Vona að þú hafir fengið einhver svör.    

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. október 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.