Brjóstagjöf eftir keisaraskurð

15.02.2009

Hæhæ!

Ég geng með þriðja barn og það eru 10 ár síðan ég átti síðasta barn. Ég er gengin 32 vikur núna. Ég hef smá áhyggjur af mjólkurmynduninni hjá mér þar sem bæði börnin voru tekin með keisara og mjólk frumburðarins kom ekki fyrr en á 11 degi. Svo gekk mjög vel að gefa og var ég með barnið á brjósti í 13 mánuði. Ennfremur hef ég áhyggjur af því að með annað barn var ég "þurrkuð upp" á fæðingardeildinni þar sem það barn fæddist mjög veikt og lifði ekki lengi. Getur verið að "þurrktaflan" geti haft einhver áhrif á næstu mjólkurmyndun?  Þar sem ég fer sennilega í þriðja keisarann núna get ég þá ekki átt von á því að mjólkin myndist aftur seint? Er eitthvað hægt að gera til þess að flýta fyrir mjólkurmyndun eftir að barnið fæðist með keisara?

 


Sæl og blessuð!

Það hefur sem betur fer ýmislegt breyst síðan fyrir 10 árum. Aðalástæðan fyrir því að konur voru lengur af stað í mjólkurmyndum eftir keisaraskurð var nefnilega að þær fengu börnin mun seinna til sín á brjóst og stundum líka sjaldnar á fyrstu dögunum. Það er breytt núna. Nú fá konur börn sín á brjóst strax að aðgerð lokinni og meira segja stundum á skurðarborðið. Það er síðan reynt að leggja áherslu á að þær fái barnið sitt á brjóst eftir þörfum barnsins alveg eins og aðrar konur. Þetta gerir það að verkum að mjólkurmyndun fer alveg jafn fljótt af stað og hjá þeim. Svo þú átt alla möguleika á að þetta gangi vel hjá þér núna.

Þurrktaflan sem þú fékkst síðast hefur engin áhrif núna frekar en járntaflan sem þú tókst þá.

Þú getur stuðlað að því að flýta mjólkurmynduninni sérstaklega með því að leggja sérlega oft á brjóst fyrsta sólarhringinn eftir fæðingu. Ef barnið er ekki tilbúið að sjúga oft geturðu mjólkað aukalega með fingrunum. Bara 2-3 mínútur hvoru megin.

 Með bestu óskum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
15. febrúar 2009.